Leikdeild Umf. Íslendings
Smáborgarabrúðkaup
eftir Bertold Brecht
þýðing Þorsteinn Þorsteinsson
leikstjórn Ingrid Jónsdóttir

Það er brúðkaupsveisla og þar eru glæsileg brúðhjón ásamt fjölskyldu sinni og vinum sem eru komnir til að skála fyrir þeirra björtu framtíð. Veisluborðið er þrungið mat og víni, það er ljósadýrð og prúðbúnir gestirnir ganga um og spjalla um hvað þetta sé nú allt efnilegt og flott.  Á meðan gerir faðir brúðarinnar tilraunir til að segja gamansögur.

Þannig byrjar leikrit Bertolts Brechts (1898-1956), Smáborgarabrúðkaup, sem frumsýnt var af Ungmennafélaginu Íslendingi í Félagsheimilinu Brún föstudaginn 9. nóvember sl. Verkið er í íslenskri þýðingu Þorsteins Þorsteinssonar. Þetta er æskuverk Brechts, samið árið 1919, einu ári eftir að fyrri heimsstyrjöldinni lauk. Brecht upplifði stríðið í sinni köldustu mynd og það hlaut að hafa áhrif á skrif hans sem hugsandi og uppreisnarkennds höfundar.

Í upphafi leikritsins blasir fyrrnefnd glansmynd við áhorfandanum og allt virðist í ljúfri löð. En smám saman falla grímurnar og það glyttir í annað og meira. Hjónabandið er við nánari skoðun ekki sú endanlega lognkyrra höfn sem einstaklingurinn leitar að og smáborgarinn finnur ekki hamingjuna þar sem samfélagið skammtar honum bás. En þrátt fyrir ískaldan undirtón er leikritið skemmtilegur farsi og oft var hlegið í salnum. Stundum brá fyrir staðfærslu og tilvísunum, bæði í menn, málefni og tónlist og kom það vel út. Að mati undirritaðrar hentar sýningin ekki yngri börnum. Hún er ögrandi og beinskeytt, þarna eru skilaboð á ferðinni og fullt af spurningum sem hinn ungi Brecht varpar fram. Það er því vel við hæfi að flestir leikendanna í Brún eru ungt fólk sem nálgast hlutverk sín af sama krafti og höfundurinn skrifar þau. Hraðinn er mikill og leikstjórinn Ingrid Jónsdóttir á hrós skilið fyrir góðar samstillingar og heildarsvip. Reynsla hennar nýtur sín vel þar sem hugað er að hverju smáatriði án þess að það trufli gott rennsli. Leikritið fer fram víða um húsið og áhorfendur sitja þar sem flest gerist og eru jafnvel þátttakendur í leiknum. Tónlistin setur mikinn svip á verkið, t.d. með fallegum söngatriðum. Hún skapar líka þann hraða sem textinn krefst hverju sinni, svipað og í rismiklu tónverki.

Leikendur stóðu sig allir með ágætum þetta kvöld og orkan og ádeilan í verkinu skiluðu sér vel til áhorfenda. Og ekki má gleyma þeim sem standa bak við tjöldin við skipulag og aðra vinnu, þau störf eru líka mikilvæg. Það er þakkarvert að fá verk eftir Brecht heim í hérað, flutt af hæfileikafólki sem leggur líf og sál í viðfangsefnið eins og hér er gert.

Guðrún Jónsdóttir