Leikfélag Hörgdæla
Með fullri reisn
Leikstjóri: Jón Gunnar Þórðarson
Undanfarnar vikur hefur Leikfélag Hörgdæla sýnt gamanleikinn Með fullri reisn fyrir fullu húsi bæði föstudags- og laugardagskvöld og oftar en ekki bætt við miðnætursýningum til að anna eftirspurn eftir miðum á þessa frábæru skemmtun. Með fullri reisn er 10 ára gamalt sviðsverk bandaríska leikrita- og söngleikjaskáldsins Terrence McNally eftir breskri kvikmynd með sama nafni eftir handritshöfundinn Simon Beaufoy.
Sviðsverkið gengur út á sömu þætti og voru burðarásar í kvikmyndinni, atvinnuleysi, verkalýð (hér bændur) rétt fráskilinna feðra til að umgangast og ala upp börnin sín, þunglyndi, getuleysi, samkynhneigð og sjálfsmorð. Hljómar ekki sérstaklega uppörvandi og varla dettur fólki gamanleikur í hug við fyrsta lestur. Nema hvað, hér tekst að gera hið ótrúlega innan ramma hins trúlega. Vandamál líðandi stundar eru sungin og leikin með glaðværð og hlýju og dashi af kynórum og skemmtilega „sveitalegum“ sexappíl.
Fyrir þau okkar sem hafa notið leiklistarhæfileika og leikgleði þeirra sem standa á sviði Leikfélags Hörgdæla kemur ekki á óvart að áhorfendum og –heyrendum skuli skemmt eins og enginn komi morgundagurinn. Það sem hlýtur að vera nýtt er hversu frábærlega hefur tekist að staðfæra verkið á blettinum sem leikið er á. Jón Gunnar Þórðarson leikstýrir verkinu af öryggi og festu en nær að skapa rými fyrir hvern og einn á sviðinu sem teygir anga sína um allan salinn. Eins og fram kemur í leikskrá er staðfærslan leikstjóra og leikara í sameiningu og viðbrögð áhorfenda sýndu svo ekki varð um villst að töfrar leikhússins virka án tillits til húsrýmis og aðbúnaðar.
Aðalsöguhetjan Gunni er leikinn af Bernharð Arnarsyni. Hann er fráskilinn faðir með fjárhaginn í molum en ákveðinn í að skapa sér og syni sínum framtíð þótt grípa þurfi til óvenjulegra ráða eins og að strippa „á sprellanum“ fyrir framan fullan sal af kröfuhörðu kvenfólki. Gunni og besti vinurinn Dabbi, leikinn af Stefáni Jónssyni, eru trúverðugir og sannfærandi í alla staði. Reyndar má segja þetta um allan leikflokkinn þótt mest mæði á strippurunum stæðilegu eða „trylltu törfunum“ eins og þeir kalla sig í auglýsingaskyni.
Þótt verkið gerði sig fínt með breyskum drengjum á öllum aldri og hefði örugglega verið hin ágætasta skemmtun með þungamiðjuna á strákum í vanda þá kom, sá og sigraði sjálf Stefanía Elísabet Hallbjörnsdóttir undir fullum seglum í hlutverki sínu sem „eftirlauna“ skemmtikraftur úr annarri veröld.
Þegar sá sem þetta skrifar kom úr húsi, með kjálkana úr skorðum gengna eftir hlátrasköll í nærri tvo tíma, streymdi að fólk á miðnætursýningu í samkomuhúsinu á Melum. Það er ljóst að sagan flýgur og fólk sem langar til að lyfta sér upp og njóta menningar í faðmi Hörgárdals hefur frétt af góðri skemmtan og lætur ekki segja sér það tvisvar.
Ágúst Þór Árnason
(Birt með góðfúslegu leyfi Vikudags á Akureyri)
{mos_fb_discuss:2}