Harpa Rún Kristjánsdóttir skrifar um Gestagang hjá Hugleik

Ef ykkur langar til að berja raunverulegan glymskratta augum, þá er tækifærið núna, á Sölvhólsgötu 13. Hann bíður ykkar í anddyrinu, þegar komið er á sýningu leikfélagsins Hugleiks á nýjum söngleik Þórunnar Guðmundsdóttur, Gestagangi.
Gestagangur er sjálfstætt framhald söngleiksins Stund milli stríða sem valin var Áhugaleiksýning ársins 2014. Aðdáendum er eflaust kærkomið að sjá persónur úr seinna verkinu ganga í endurnýjun lífdaga, en vel er þó hægt að njóta verksins án þess að hafa kynnt sér hið fyrra.

Vitum við, eða hvað?
Sögusvið Gestagangs er Reykjavík stríðsáranna, nánar tiltekið þegar breskt setulið gengur hér á land. Varla þarf að kynna þetta tímabil Íslandssögunnar fyrir nokkru mannsbarni, eða hvað? Líklega er raunin sú að sífellt þarf að fræða nýjar kyslóðir um þennan rósturssama tíma, og ekki sakar að rifja hann upp með nýjum gleraugum annað slagið. Þetta tekst verkinu prýðilega og augljóst að umtalsverð heimildavinna liggur að baki.
Fréttir og tilkynningar eru teknar beint úr dagblöðum tímabilsins til að ná fram stemningunni. Raunverulegir menn á borð við Hermann forsætisráðherra, Eystein fjármálaráðherra og Winston (Sigurstein) Churchill birtast ljóslifandi. Aðrar persónur verksins þurfa síðan að takast á við aðstæður og áskoranir sem eiga sér raunverulega uppsprettu í sögunni.
Búningar (María Björt Ármannsdóttir og Dýrleif Jónsdóttir, förðun og hár (Ninna Karla Katrínardóttir) eru einkar vel heppnuð. Stríðsáratískan er vinur flestra kvenna líkt og einkennisbúningar karla, og í Gestagangi tekst prýðilega til við að skapa útlit og yfirbragð tímabilsins. Þá verður að nefna tónlistina, sem eins og verkið er eftir Þórunni, og leikin er af hljómsveitinni Svartstökkum og skilar tíðarandanum vel.
Aukinheldur er verkið ágætis samfélagsspegill. Valdhafarnir spilltu sem brugguðu launráð á bakvið þjóðina voru einhvernvegin sérstaklega áhrifamiklir daginn eftir Kveiksþáttinn. Einnig er að finna ákveðið femínískt uppgjör við ástandið, viðbrögð stjórnvalda við því og manneskjuvæðing á meintum þátttakendum í þess.
Verkið er þess vegna kjörið fyrir leikmenn og lengra komin til að fræðast um hernámsárin á Íslandi. Efnistök og úrvinnsla henta vel sem skemmtun fyrir stórfjölskylduna og er vísast vel til þess fallið að skapa umræður og vekja spurningar. Eitt af því sem unnið er með á frjóan og skemmtilegan máta eru tungumálaörðugleikar Íslendinga og hernámsliðsins. Á köflum fékk enskan þó fullmikið rými, sem gæti haft áhrif á upplifun einhverra sem ekki hafa nægjanlegt vald á henni. Í einræðu Churchills hefði til dæmis mátt beita betri nálgun, sér í lagi í ljósi þess hversu gott vald leikskáldið hefur á íslensku máli, slettum þess, fettum og brettum.

Þrjátíu manna þrusukór
Tónlistin í verkinu ætti skilið sína eigin gagnrýni. Fyrsti samlestur var í byrjun september og það er í raun þrekvirki út af fyrir sig að þjálfa upp þrjátíu manna kór á þeim tíma – hvað þá svona góðan. Söngvarnir ramma söguna inn, en gætu sumir hverjir sem best staðið einir og sér. Hugleikur hefur úr feikna góðu raddfólki að moða og vinnur vel úr.
Hópsöngvarnir eru fluttir af feikna krafti og er þá styrkur hversu marga leikara er hægt að hafa á sviðinu í einu. Í fyrstu var ég efins um að hafa hljómsveit á sviðinu en það steinlá. Hún lék sitt hlutverk með prýði, féll í bakgrunninn þegar við átti en stóð í sviðsljósinu þegar þess þurfti með.
Það er mikill fengur að öllum þessum söngtextum og ég saknaði þess að sjá ekki fleiri þeirra í leikskránni. Angurværðin var ekki síðri en gleðin og glensið. Söngurinn hennar Bíbíar var kristaltær og sár í fögrum flutningi Ninnu Körlu en ég hélt mest uppá röddunina í fjórsöng íslensku stúlknanna og dátanna. Dans og sviðshreyfingar allar voru þar að auki augljóslega vel æfð og samhæfð og virkuðu oft sem áhersluauki. Höfundar þeirra eru þær Selma Rán Lima, María Björt Ármannsdóttir og Ninna Karla Katrínardóttir sem einnig eru þar fremstar meðal jafningja. Hvernig er annað hægt en að gleðjast yfir steppandi dansflokki?

Hversu mikið má hlæja áður en það verður vandræðalegt?
Án allra málalenginga má segja að sýningin er frábær æfing fyrir hláturvöðvana. Húmorinn í verkinu er það sem kalla má heimilislegur og ætti að geta höfðað til fólks á öllum aldri. Sumar skrítlurnar eru einfaldar og reiða sig jafnvel á látbragð og svipbrigði leikaranna, sem bregðast eigi. Aðrar eru heldur dýpri og krefjast jafnvel einhverskonar forþekkingar – en þeim mun ljúfari þeim sem kveikja.
Verkið er í heild sinni afskaplega vel leikið. Hópurinn virðist samheldinn og þau skemmta sér vel, sem skín í gegn. Að öðrum ólöstuðum verður að nefna Hjörvar Pétursson sem geislar í hlutverki Nóa, af honum stafar ómældri leikgleði sem gerir hina einlægu og skemmtilegu persónu Nóa alveg ógleymanlega.
Leiktextinn er lifandi og skemmtilegur og allir leikendur skila honum með sóma. Mikið af húmor verksins felst í einföldum leikjum að tungumálinu, aðstæðum og upplifun. Gagnrýnandi vill biðja leikendur afsökunar á að hafa sest fremst og orgað úr hlátri – en þið áttuð það skilið!

Hláturspegillinn
Verkið er drifið áfram af atburðum fremur en persónum, sem veldur því að fæstar þeirra öðlast mikla dýpt, þær eru tannhjól í söguþræði. Þetta á þó ekki við um hjónin Nóa og Hrönn né Gunnar lögregluþjón, en þau lifa áfram úr síðasta verki. Ýmsum leikritunarbrellum er beitt og auðséð að höfundur er vel að sér í þeim efnum. Þrítalan er áberandi, ráðmennirnir þrír, söngdívurnar þrjár og gömlu kerlingarnar þrjár eru kunnuglegar á sviðinu. Að sama skapi öðlast bókmenntalegar vísanir broslegan blæ, eins og eftirgrennslarinn Agnar sem fær Cassöndrubölvun á spádóma sína og Nói og kona hans sem fylla fangelsið sitt, eða örkina, af þeim sem þarf að bjarga á öldum lífsins.
Og þar komum við að kjarna verksins. Þó glaðværðin svífi yfir vötnum er undiraldan djúp og köld. Það geisar stríð og fólkið er hrætt. Skelfilegar afleiðingar hernaðarbröltsins ná til ólíklegasta fólks, og ekki eiga allir afturkvæmt af vígstöðvunum. Áhrifamesta lína verksins að mínu mati er lögð í munn Jónu eftirgrennslara; „við getum ekki bjargað þeim öllum.“ Hið lauflétta og gamansama yfirborð verksins skapar fullkomið mótvægi til að draga fram sársaukann í hörmungunum. Það endurspeglar einnig lífið sjálft, þar sem eina leiðin til að takast á við hræðilega atburði er gjarnan að slá á létta strengi. En bakvið grímuna sem brosir, er önnur sem fellir tár.

Harpa Rún Kristjánsdóttir