Leikfélag Ölfuss
Rummungur ræningi
eftir Otfried Preußler
Leikstjóri: Ármann Guðmundsson

Það er skemmtileg ævintýrastemning í Ráðhúsi sveitarfélagsins Ölfus í Þorlákshöfn um þessar mundir, en þar sýnir Leikfélag Ölfuss fjölskylduleikritið Rummung ræningja eftir Otfried Preußler í þýðingu og leikstjórn Ármanns Guðmundssonar. Verkið er 9. verkefni L.Ö. frá því að félagið var vakið úr dvala árið 2005, en félagið stendur sig vel í að ala upp nýja kynslóð leikhúsáhugafólks í Ölfusi, sem og nýja kynslóð leikhúsáhorfenda.

rummungur1Rummungur ræningi fjallar um tvo pilta þá Sæla og Kaspar, sem mæta til ömmu sinnar á afmælisdaginn hennar til að gleðja hana með forláta gjöf, kaffikvörn sem einnig er spiladós. Ekki vill betur til en svo að Rummungur ræningi, óhandteknasti ræninginn í skóginum, á þar leið hjá og rænir kaffikvörninni af ömmu. Þeir félagar Sæli og Kaspar eru aldeilis ekki á þeim buxunum að leyfa Rummungi að komast upp með ódæðið og upphefst þar með ævintýraleg atburðarrás þar sem koma við sögu auk Rummungs, huglaus lögregluvarðstjóri, frekjuleg kartöflufíkin galdranorn, froskur og álfamær. Sagnasviðið, málfar og persónur minna um margt á sögur Ole Lund Kirkeagard, þar sem yngri kynslóðin hefur vit fyrir hinum fullorðnu og allt getur gerst.

Eins og gefur að skilja getur allt gerst í ævintýraheimi, fólk birtist og hverfur aftur, hlutir galdrast til og frá og eldingar leiftra.  Leikstjóra hefur tekist vel til með að búa til heim fyrir þessa skemmtilegu sögu í þeim þrönga ramma sem sviðið í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn býður uppá. Allar lausnir varðandi leikmynd eru bráðsnjallar og eiga sviðsmenn hrós skilið fyrir sinn hlut í sýningunni, þar sem miklar skiptingar eiga sér stað á sviðinu. Hljóðmynd Björns Thorarensen er einföld og rammar atriðin vel inn.

pafagaukurÁhorfendur skemmtu sér greinilega stórvel á sýningunni og kallaði Rummungur ræningi, leikinn af Aðalsteini Jóhannssyni, að öðrum ólöstuðum fram mesta kátínu þeirra. Aðalsteinn fór vel með hlutverkið, sjálfsánægjan og vitleysan uppmáluð. Þau Baldur Viggósson Dýrfjörð og Jenný Karen Aðalsteinsdóttir stóðu sig vel í hlutverkum hinna hugrökku Sæla og Kaspars, en þau eru að stíga sín fyrstu skref með L.Ö. og fá vonandi fleiri tækifæri til að spreyta sig. Oddfreyja H. Oddfreysdóttir og Erla Dan Jónsdóttir standa sig með prýði í hlutverkum nornarinnar og ömmu. Rakel Ósk Aðalsteinsdóttir var dulúðleg álfamær og Þórður Njálsson veiklundaður varðstjóri.

Þýðing Ármanns Guðmundssonar á Rummungi er mjög vel heppnuð, orðaleikir og útúrsnúningar skiluðu sér vel til áhorfenda. Sagan kom undirritaðri skemmtilega á óvart og greinilegt að þetta verk, þótt 50 ára sé, stendur enn fyrir sínu. Sýningin er bráðskemmtileg og á erindi til allra sem þora að hitta neflangar nornir og ræningja í götóttum sokkum.

Guðfinna Gunnarsdóttir