Hörður S. Dan. skellti sér á sýningu Unglingadeildar Leikfélags Hafnarfjarðar „Gefðu Jens séns. Þetta er sýning byggð á spunavinnu sem unglingarnir hafa staðið í frá því í janúar. Endaði sú vinna með fjögurra vikna formfastari vinnu og er þessi sýning útkoma þess.

Sagan sjálf, uppbygging hennar og innihald, var frekar sundurleit verð ég að segja. Mjög snemma hætti ég að spá í hvert þetta allt saman stefndi. Enda held ég að það hafi ekki verið tilgangurinn með þessu verki, nema bara að litlu leyti. Þó söguna hafi vantað þá hafði ég mjög gaman af, var þetta miklu frekar mörg lítil stuttverk um sömu persónur sem smellt hafði verið í eina sýningu. Skemmti ég mér vel yfir súrealískum samtölum og aðstæðum.

Leikmyndin var einföld og þjónaði sínum tilgangi vel. Í raun samanstóð hún af tveimur sófum og orgeli. Einfalt og gott og ekkert meira um það að segja. Að sama skapi hugsaði ég lítið um ljósin, þau voru ágæt. Ljósamenn skiluðu sínu með ágætum.

Það sem stóð upp úr í þessari sýningu voru samt leikararnir. Þeir geisluðu af sjálfsöryggi og leikgleði. Aldrei hef ég séð eins mikið sjálfstraust á sviði hjá svona ungu fólki. Allir stóðu sig frábærlega og sýnist mér að þessi spunavinna hafi gert lítið kraftaverk. Tímasetningar og hlustun var líka til fyrirmyndar. Aldrei dauður punktur, allir vakandi og tilbúnir í að láta boltan ganga. Eins voru karakterarnir skemmtilegir, með sín sérkenni sem komust vel til skila. Með svona góðri vinnu er hægt að gera símaskránna áhugaverða.

Svo, til að gera langa sögu stutta, þá var þetta súrrealísk og svolítið sundurleit saga með frábærum leikurum. Gott dæmi um hvað spunavinna getur gert.

Hörður S. Dan.

{mos_fb_discuss:2}