Stræti eftir Jim Cartwright
Halaleikhópurinn
Leikstjóri: Guðjón Sigvaldason
Trausti Ólafsson rýnir 

Sautján leikarar í meira en helmingi fleiri hlutverkum stíga fram í leikrými Halaleikhópsins í Hátúni 12 og bjóða áhorfendum upp á sýningu á leikriti um líf fjölda fólks sem býr við sömu götuna í breskri borg. Jim Cartwright heitir höfundur leikritsins og fyrir um tuttugu árum nutu verk hans töluverðra vinsælda hérlendis. Barpar hjá Leikfélagi Akureyrar og síðar í Borgarleikhúsinu, þar sem Stone Free var einnig sýnt, og Taktu lagið Lóa sem gekk nær endalaust á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins og farið var með í leikför um Norðurland – og kannski víðar. Og Stræti í Þjóðleikhúsinu, en það leikrit frumsýndi Halaleikhópurinn á föstudagskvöldið. Sýningin gladdi oft hjarta og hug áhorfenda, en var langt frá því að vera eins hnökralaus og efni standa í raun til. Meira um það síðar en upp úr stendur að leikhópurinn leggur oft sjálfan sig að veði í sýningunni. Aðalsmerki hennar er kærleikur til leiklistarinnar og sú ást ber sýninguna uppi.

Jim Cartwright fæddist árið 1958, tveimur árum eftir að reiðir ungir menn – og konur – tóku sviðið í enskri leikritun og leikhúsi. Straujárnið hennar Alison Porter í Horfðu reiður um öxl, sem frumsýnt var í London 1956 og markar upphaf tímabils ungra reiðra leikritahöfunda í ensku leikhúsi, varð næstum eins og táknmynd þessa skeiðs. Þetta straujárn gengur í endurnýjun lífdaganna í leikhúsinu Hátúninu í sýningunni á Stræti. Þar grípa nokkrar persónur í það að strauja föt sín og einn peningaseðla, sem mér sýndust vera fimmhundruð kallar.
En íslenskir seðlar eiga ekki við í þessu leikriti og ekki heldur aðrar tilraunir til þess að færa sögusvið þess til á hnettinum, en þær eru nokkrar í sýningunni. Leikrit Cartwrights er svo breskt að staðfæringar gera ekkert annað en að veikja boðskap þess og innihald. Leikpersónurnar sem stíga fram á sviðið í Stræti eru sprottnar upp úr veruleika enskra stórborga þar sem atvinnuleysi og líf dregið fram á knöppum bótum samfélagsins er orðið að prófessjón sem gengur í arf frá kynslóð til kynslóðar. Þessi hluti breskrar lágstéttar festist enn frekar í sessi á Thatcherárunum og ræturnar orðnar svo djúpar í mannlífi og hagkerfi að vandséð er að nokkur leið finnist til baka. Svo langt erum við hér á skerinu enn ekki leidd – held ég og vona – og bið þess að það gerist ekki. Því fátækt fólksins í Stræti Cartwrights er ekki rómantísk og nánast engin leið til þess að lifa farsælu lífi með og í henni, né heldur að brjótast þaðan út. Nema þá fyrir snillinga eins og Billy Elliot í þeirri flottu sýningu Borgarleikhússins um það hvernig Thatcher braut ensku verkalýðshreyfinguna á bak aftur.
Form Strætis byggist að miklu leyti á stuttum atriðum þar sem brugðið er upp svipmyndum úr lífi persónanna, oft eru þetta einræður og stuttleikir innan leikritsins, og hverju sinni kynnir Scullery (Hlynur Finnbogason) það fólk sem sögunni er vikið að. Scullery heldur þannig utan um sýninguna og leiðir áhorfendur í gegnum hana, segir okkur til dæmis undir lokin að allt sem þarna gerist eigi sér stað á einni nóttu. Því fékk ég annars litla tilfinningu af og ekki veit ég hvort Cartwright skrifaði þetta svona. Að mínu áliti væri miklu sterkara að leggja á það áherslu að atburðirnir í þessu leikriti eru endurtekið efni, eilíf og endalaus endurspilun eins og mest af tónlistinni í sýningunni. Persónurnar eru lokaðar inni í sínum litla, kalda og litlausa veruleika þar sem áfengisdrykkja, smáglæpir, vændi, ofbeldi og grófar kynlífsathafnir setja sterkan svip á lífið. Okkur er reyndar að mestu hlíft við að horfa á þetta en Scullery þreytist ekki á því að tala um hórur, segja okkur hvað hann sé graður og til í að ríða í húsasundinu. Um það gildir sú gamla regla að minna er oft meira og þetta aulalega greddutal varð að lokum í besta falli aumkunarvert. Allt öðru máli gegndi um undursmellna og einlæga senu Helenar (Ásta Dís Guðjónsdóttir) með hermanninum unga (Alexander Ingi Arnarson). Þar small umkomuleysið og vonleysið saman í einn skartgrip svo unun var á að horfa.
Það spillir líka fyrir Hlyni Finnbogasyni í hlutverki Scullery hvernig sá sögumannskarakter er lagður. Hann er allt of hávær og eintóna og það getur vart annað verið en hægt væri að dýpka og auðga rödd hans og framsögn án mikillar tilsagnar. Fyrir leikara er ekki nóg að vera raddsterkur – blæbrigði og mýkt raddar eru ekki síður mikilvæg. Ég veit ekki heldur hversu góð hugmynd það er að Scullery skuli vera að abbast upp á fólk í fordyrinu áður en sýning hefst í stað þess að leyfa áhorfendum bara að ganga í salinn til þess að horfa á leiksýningu. Það að rjúfa skilin milli heims verksins og heims áhorfenda er afar vandrataður vegur og í því liggur stærsti vandi þessarar sýningar. Iðulega ganga leikararnir næstum alveg upp að áhorfendum og ávarpa þá beint. Þetta er orðið vinsælt bragð í leikhúsum en það þreytist afar fljótt og verður bara svolítið leiðinlegt í stað þess að vera áhugavekjandi. Þessi aðferð verður í sýningunni á Stræti líka til þess að sum fallegustu andartök verksins fara meira og minna ofan garðs og neðan hjá stórum hluta áhorfenda. Um það er einlæg túlkun Rutar Másdóttur í innkomu ungu konunnar sem á ofbeldisfulla manninn gott dæmi. Posavélin sem hún í sínu betlistandi otaði að konum á fremsta bekk varð svo til þess að botninn bókstaflega datt úr atriðinu.
Þessar staðsetningar leikaranna alveg ofan í áhorfendum drápu margt augnablikið í sýningunni. Oftast tókst miklu betur til þegar leikurum var skipað í stöður í betra jafnvægi við leikrýmið. Senur Gunnars Gunsó Gunnarssonar í hlutverki strauingameistarans og Margrétar Guttormsdóttur sem Molly að hafa sig til fyrir útstáelsið eru dæmi um þetta. Auðvitað kemur fleira til en þessi tvö atriði leiksins skáru sig nokkuð úr í listrænu tilliti hvað varðaði túlkun og sviðsetningu.
Hins vegar lifði ein svona sena alveg ofan í fremsta bekk og fyrir miðju sviði afar fallega og varð eitt eftirminnilegasta atriði verksins. Alice og Fred (Hanna Margrét Kristleifsdóttir og Örn Sigurðsson) sitja í hjólastólunum sínum og horfa á sjónvarpið, hún bryður flögur að breskum hætti, en hann langar til að gera eitthvað allt annað en glápa á skjáinn. Bæði dreymir þau um annan veruleika – vera Priscilla og Elvis – og þau skella sér í þann leik í lok atriðis. Dauði Prestley tímasetur reyndar þetta verk en það er algert aukatriði í þessu sambandi. Það sem upp úr stóð var innileiki leikaranna, lifandi augu þeirra og andlitsdrættir. Ekki oft sem maður fær að sjá svona inn í kviku persóna í leikhúsi. En þegar að þessu atriði kom var ég í stúkusæti sem á ekki við um alla leikhúsgesti. Hjónin í hjólastólunum voru beint fyrir framan mig og í hæsta lagi í þriggja metra fjarlægð. Af hverju fengu ekki fleiri í leikhúsinu að sjá þessi fallegu andartök? Það hefði ekki þurft að færa hjólastóla Alice og Fred nema svona einum metra aftar á sviðið svo jafnvel þeir sem sátu yst í bekkjaröðum hefðu séð leikarana og þeirra innilega samleik miklu betur en raun var á.
Það var mikið lýti á frumsýningunni hvað lokasenan með unga fólkinu var seig og treg. Kannski ekki nógu vel æfð en alla vega virkaði hún mjög viðvaningsleg og það hefði annað hvort átt að sleppa henni eða hjálpa leikurunum miklu meira við sitt verk. Lokaatriði leiksýningar er ekkert aukaatriði. Það er með hana í minni og sinni sem áhorfendur ganga út úr leikhúsinu.
Valið á verkefni Halaleikhópsins er mjög snjallt að þessu sinni. Stræti gefur möguleika á því að fjöldi leikara fái að spreyta sig á bitastæðum hlutverkum, þótt sum séu agnarsmá. Umbúnaður sýningarinnar er einnig vel útfærður að flestu leyti og lýsingin oft nánast snilldarleg. Sem vekur aftur þær spurningar um sviðsetningu sem áður var að vikið. Leiksviðið í Halanum er afar breitt og mjög grunnt, en það býður upp á miklu meiri möguleika í staðsetningum en nýttir voru í þessari sýningu. Ljósameistarinn hefði, svo dæmi sé tekið, áreiðanlega leikið sér að því að búa til ljósaheim í kringum fyrrnefnd Alice og Fred hvar sem var á þessu sviði svo fleiri fengju notið og sýningin fengið sterkara listrænt yfirbragð fyrir vikið.
Sýningin var öll nokkuð lengi að renna á frumsýningunni en það stendur trúi ég til bóta með fleiri sýningum. Og þrátt fyrir fyrrnefnda leikstjórnarhnökra á Stræti Halaleikhópsins er full ástæða til þess að hvetja fólk til þess að fara og sjá sýningu einlægs leikhóps á áhugaverðu verki, sem er mikið afrek að koma á svið fyrir hvaða áhugaleikhús sem er. En í Halaleikhúsinu vinna margar hendur flókið verk og inna það af hendi af ástúð sem skilar sér til áhorfenda. Megi svo áfram verða í hinu merka leikhúsi í Hátúni 12.

Trausti Ólafsson

Nánar um sýninguna.