Þegar sauðsvartur almúginn stígur á stokk og fremur list, er heilög skylda okkar hinna sem ekki nennum að vera með, að kemba hár okkar, fara í betri fötin og upplifa þessa list. En bíðum nú við! Heilög skylda! Almúginn! Er áhugamennska almúgans eitthvað frábrugðin atvinnumennsku elítunnar?

Ég er ekki svo viss eftir síðustu inntöku mína á leiklist. Það er útbreidd skoðun að í sérhverjum einstaklingi leynist listamaður. Það er bara misjafnlega djúpt á hann. Við uppfærslu Leikfélags Hornafjarðar og Leikhópsins Mána á Fiðlaranum á þakinu, sýnir Ingunn Jensdóttir leikstjóri fram á að þessi kenning hefur við rök að styðjast. Þar hefur hún náð að töfra fram það besta í hverjum og einum. Fiðlarinn er viðamikið stykki sem krefst margra hæfileikaríkra listamanna í tónlistarflutningi leik og söng.

Ég upplifði frumsýningu þessarar uppfærslu á föstudaginn síðasta og verð að segja að ég hreyfst með persónunum í gleði og sorg. Vandaður tónlistarflutningur, söngur og  leikur, samhliða einfaldri en sannfærandi leikmynd, gera það að verkum að þú  upplifir það andrúmsloft sem hvert atriði á að skila. Hátíðleiki Sabbathsdagsins, kráarstemningin þegar gjaforðsáttmálinn var gerður, gleðin við brúðkaupið og niðurbrot samfélagsins við brottfluttninginn, héldu hvert um sig sannfærandi blæ. Agaður leikur var það sem mér fannst helst einkenna þessa sýningu. Í hópatriðunum var sama hvert litið var allir héldu sínum karakter til augna og handa slétt og fellt.
 
Einfaldar lausnir í leikmynd svo sem atriðið sem gerist í rúminu, skilaði sér betur á þennan hátt en margar dýrari lausnir hefðu gert. Einnig færir það áhorfandann nær sýningunni að hafa leikinn víðar en á sviðinu sjálfu. Erfitt er að taka einhvern einn fram yfir annan þegar frammistaða einstakra leikara er skoðuð, svo gegnheill var leikurinn. Þó verð ég að minnast á einn einstakling sem sannfærði mig betur en aðrir. Maríanna Jónsdóttir lék viðamikið og krefjandi hlutverk og gerði það vel.
 
Kveðjustund þeirra feðgina á lestarstöðinni var svo sannfærandi að mig langaði til að gráta með. Einnig þegar Hodel og Perchik játa hvort öðru ást sína, hafði ég það helst á tilfinningunni að Stefán Helgason og Sigríður Kristinsdóttir væru um það bil að eignast tengdadóttur, svo einlægt var augnaráðið. Fjóla Hjaltadóttir og Ragnheiður Sigurjónsdóttir fóru einnig mjög vel með sín hlutverk. Tónlistarflutningurinn var mjög vel af hendi leystur, enda atvinnumenn úr Tónskóla A-Skaft þar að verki.
 
Fjöldasöngurinn hljómaði vel enda Leikfélögin dyggilega studd af Samkór Hornafjarðar sem var ekki hafður til hliðar eins og gjarnan tíðkast, heldur var hverjum og einum  fengið hlutverk á sviðinu. Söngur bæjarslúðraranna um fangavist Perchicks bar þó af með sinn hráa ferskleika og gæti látið sjálfan Megas virðast klisjukenndan í sínum fluttningi.
 
Fiðlarinn er frábær skemmtun sem ég hvet sem flesta til að sjá og upplifa og er öllum sem að standa til mikils sóma. Til hamingju Ingunn og til hamingju Hornafjörður.

Snorri Aðalsteinsson