Júlíus Júlíusson skrifar um sýningu Leikfélags Dalvíkur á Sex í sama rúmi 

Leikfélag Dalvíkur varð 80 ára í janúar s.l. og frumsýndi föstudaginn 23. febrúar 2024 leikritið Sex í sama rúmi eða Move over Mrs. Markman eftir Ray Cooney og John Chapman. Verkið var fyrst frumflutt á Íslandi af Leikfélagi Reykjavíkur árið 1985 í þýðingu Karls Guðmundssonar. 

Ég var svo heppinn að sjá generalprufuna í Ungó fimmtudagskvöldið 22. febrúar. Ég óska L.D. til hamingju með afmælið því í 80 ár hafa félagar glatt leikhúsgesti ómælt og gefið hundruðum einstaklinga færi á að skapa og finna sjálfa sig í listinni. Nýfluttir hafa fengið tækifæri á að komast inn í samfélagið og margir hafa eignast vini fyrir lífstíð. Það væri einnig hægt að skrifa heilan bálk um tækifæri og afrek unga fólksins sem hefur stígið sín fyrstu skref í leiklist eða tónlist á sviðinu í Ungó, já eða í baksviðsvinnu. Mörg þeirra hafa síðar getið sér gott orð á landsvísu. Takk allir sviðs og baksviðs sem hafa lagt hjarta sitt í þetta merkilega starf. 

Sex í sama rúmi fjallar um Philip og Joanna Markham sem eru hamingjusamlega gift. Philip er barnabóka útgefandi og vinnur á neðri hæð íbúðar þeirra hjóna, ásamt félaga sínum Henry Lodge sem er kvæntur en hviklyndur í hjónabandinu. Henry hefur talið Philip á að lána sér íbúðina þetta kvöld til að eiga ástarfund með nýjasta viðhaldinu. Linda, eiginkona Henry veit að hann er henni ótrúr og hún biður Joanna um að lána sér sömu íbúð til að hitta þar mann sem hún ætlar að sofa hjá til að hefna sín á Henry. Alistair Spenlow er í ástarsambandi við au-pair stúlku Markham hjónanna og þau hafa líka skipulagt ástarfund á staðnum þetta kvöld. Hvað gæti farið úrskeiðis?

Saga Jónsdóttir er frábær leikstjóri með mikla reynslu. Hún hefur unnið afar góða vinnu og fagmennskan er svo sterkt til staðar í Sex í sama rúmi.
Ég notaði orðið upprisa hér í fyrirsögn  og vísa þar í að ekkert verk hefur verið sett upp síðan að heimsfaraldurinn skall á. Saga hefur náð að stilla leikhópinn saman sem eina heild sem stígur leikdansinn saman í fullkomnum takti. Til hamingju Saga. 

Það er ekki veikan blett að finna í funheitum og samstæðum leikhópnum, ætli höfundarnir hafi skrifað verkið fyrir þennan leikhóp? Það er alveg ljóst að hungrið í að komast á svið eftir langt hlé skilar sér heldur betur, það er hrein unun að koma í leikhús þegar maður finnur kraftinn og leikgleðina  fram í sal og langt fram í dal. 

Jóhanna Sólveig Hallgrímsdóttir sem Joanna Markham skilar þessu hlutverki mjög vel og greinilegt að hún elskar sviðið og það eru atvinnumannataktar hér á ferð, hún límir þetta vel saman. Valur Freyr Sveinsson sem Philip Markham er að stíga sín fyrstu skref á sviði. Hann er flottur og fágaður og ekki að sjá að hann sé að gera þetta í fyrsta skipti og eftir  2-3 sýningar nær hann enn betur að slaka á, njóta og sitja í hlutverkinu, vel gert Valur. Harpa Kristinsdóttir sem Linda Lodge hefur leikið áður og reynslan klárlega til staðar, hún er svo mikil Linda og gerir þetta óaðfinnanlega vel. Gísli Rúnar Gylfason sem Henrý Lodge er alveg fullkominn í þetta hlutverk, það væri erfitt að sjá þetta verk án  Gísla Lodge honum líður vel í hlutverkinu og er alveg meðetta. 

Guðbjörg Óladóttir er góð sem Oliva Harriet Smithe barnabókarhöfundur sem býr með hundunum sínum. Ég sé það fyrir mér að höfundarnir hafi skrifað verkið með Guggu í huga, ég trúði öllu sem að hún sagði og sá lífið hennar lifna við eins og í kvikmynd, lauflétt og áreynslulaust hjá Guggu. Sigurbjörn Hjörleifsson reynsluboltinn mikli er búinn að koma fram á fjölunum í Ungó í yfir 40 ár. Það kom hlýja í hjartað þegar hann gekk inn á sviðið og hann brillerar sem Walter Pengborne. Að vanda skilaði Sigurbjörn sínu hlutverki afskaplega vel, það er ekki nokkur almennileg grín sýning án fulla kallsins, þar dansaði hann fullkomlega hárfínt á línunni. Valgerður Inga Geirdal Júlíusdóttir sem Lisbet Ina Wilkinsson kemur eins og stormsveipur á sviðið, Valgerður  er flott jafnt sem rólega, saklausa sæta stelpan eða í kraftmeiri senum þegar hitnar í kolunum. 

Kvakk kvakk…Þórdís Ómarsdóttir sem Sylvie, tilfinninganæma, krúttlega fullkomna, harðduglega þjónustustúlkan smellpassar í hlutverkið, sérstaklega í daður skotunum. Ef ég væri beðinn um að nefna einn leikara sem skaraði fram úr myndi ég klárlega nefna Bjarka Sigurðsson sem Alistair Spenlow, það jaðrar við að hann stígi í fótspor Árna heitins Johnsen og steli senunni. Bjarki er að stíga sín fyrstu skref á sviði, hann er frábær, honum líður svo vel á sviðinu og það skilar sér heldur betur til áhorfenda, svipir, tímasetningar, fas og hvað hann gerir vel þegar hann er án rullu á sviðinu. Þau Bjarki og Þórdís ná mjög vel og fallega saman…kvakk kvakk.
Þessi tvö síðastnefndu eiga ekki langt að sækja hæfileikana, hafa sennilega fengið þá með móðurmjólkinni en Þórdís er dóttir Kristínar Svövu Stefánsdóttur  og Bjarki sonur Dönu Jónu Sveinsdóttur en báðar hafa brillerað á fjölunum í Ungó til fjölda ára.

Leikmyndin er virkilega vel gerð, hvert smáatriði úthugsað, litir og einfaldleikinn styður vel við verkið og truflar ekki, sama er með búninga, förðun, hár og skegg faglegt og fullkomlega hárrétt. Lýsing og tæknimálin eru í góðum höndum og óaðfinnalegt. Í öllu þessu hafa menn lagt sig afar vel fram. 

Allir í Ungó, hláturinn lengir lífið og ÁFRAM LD. Til hamingju allir sem að þessari sýningu koma.

Takk fyrir mig.
Júlíus Júlíusson