Brúðuheimar með Bernd Ogrodnik brúðulistamann í fararbroddi, settu upp sýninguna Gamli maðurinn og hafið á Listahátíð í vor í samvinnu við Þjóðleikhúsið. Sýningin fékk frábærar viðtökur og var sýningum hætt fyrir fullu húsi í sumarbyrjun. En nú er Bernd mættur heim til Íslands til að færa Gamla manninn og hafið upp að nýju í Þjóðleikhúsinu og gefst nú fólki tækifæri á að bera þennan gullmola augum. Fyrstu sýningar fara fram þann 7. og 8. nóvember og aðeins verður um takmarkaðan sýningarfjölda er að ræða.

Á þeim tíma sem frá er liðinn hefur margt drifið á daga Bernds brúðulistamanns. Hann hefur dvalið að mestu vestur í Kanada þar sem hann frumsýndi Pétur og úlfinn á ensku fyrir vesturfara og aðra vestanmenn. Kanadabúar voru ekki síður hrifnir af þessari einstöku og fallegu sýningu en Íslendingar hafa verið og eru enn. Nýlega sýndi Bernd sömu sýningu í samvinnu við Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborgarsal Hörpu fyrir fullu húsi af ánægðum börnum, foreldrum og öðrum vandamönnum.

Bernd hefur einnig hafið samstarf við Óperuna í Vancouver í Kanada, en þar er unnið að uppsetningu Töfraflautunnar eftir Amadeus Mozart á vormánuðum og mun Bernd vinna brúður fyrir óperuuppfærsluna. Þetta á einstaklega skemmtilega við þar sem Bernd smíðaði einnig brúðurnar sem voru notaðar í uppfærslu Íslensku Óperunnar á Töfraflautunni á síðasta ári en Töfraflautan var fyrsta verk Óperunnar í nýjum heimkynnum sínum í Tónlistarhúsinu Hörpu.

Samhliða sýningunni verður ljósmyndasýningin „Gamli maðurinn, frá upphafi til enda“ sett upp í forsal Kúlunnar þar sem sýningin fer fram. Myndirnar tók Þorkell Þorkelsson ljósmyndari, allt frá því að hugmyndin kviknaði hjá Bernd um að setja upp þessa sýningu eftir sögu meistarans Ernest Hemingway og þar til sýningin var frumsýnd síðastliðið vor.