Leikhópurinn Jelena er nýr leikhópur sem setti upp verkið Purpuri eftir Jon Fosse í ágúst síðastliðnum. Varð hópurinn því á undan nokkrum öðrum hérlendis að setja upp verk eftir spúttnikkleikskáldið Fosse, sem ku vera einna mest leikinn allra Norðurlenskra skálda þessi árin. Nú stendur til að sýna fjórar sýningar á þessu verki í tengslum við Fosse-hátíð sem stendur yfir í Þjóðleikhúsinu um helgina. Útsendari Leiklistarvefjarins mætti á þá fyrstu.

Leikhópruinn Jelena
Purpuri
Höfundur: Jon Fosse
Leikstjóri: Friðrik Friðriksson
Sýnt í verinu, Loftkastalanum

Ég verð að byrja á að hrósa leikhópnum fyrir framtakið. Þarna eru á ferð nokkrir krakkar sem langar, og hafa hæfileika til, að fremja leiklist. Þau fóru þá leið að stofna leikhóp. Ekkert nema snilld. Og að næla í verk eftir höfund sem ekki hefur verið sýndur áður hér á landi og að geta tengt sig inn í leiklistarhátíð í Þjóðleikhúsinu með fyrstu sýningu hópsins lýsir miklu hugrekki og útsjónarsemi. Ég vonast til að sjá meira af þessum leikhóp í framtíðinni.

Og þá að sýningunni.

Þarna greinilega á ferðinni hópur hæfileikafólks. Nú veit ég ekki hvaða reynslu þau hafa, en það var enginn byrjendabragur á leik í þessari sýningu. Fremstur meðal jafningja þótti mér Strákurinn, Bragi Árnason. Hann skilaði sínu af miklu öryggi, jafnt vandræðalegum augnablikum í samtali við stelpu sem öflugum tilfinningagosum. Erna Svanhvít Sveinsdóttir var einnig góð í sínu hlutverki. Gunnar Atli Thoroddsen og Sigurður Kjartan Kristinsson voru afslappaðir í hlutverkum sínum og komu sínu vel til skila. Ég var ekki alveg sátt við lögnina á persónu trommarans, sem leikinn var af Baltasar Breka Baltasarssyni. En ég hef grun um að þar hafi ekki verið við leikarann að sakast. Ég er ekki frá því að persóna hans hefði virkað valdameiri með minni hávaða. En þar er við höfund og leikstjóra að sakast. Ég reikna með að sjá meira af öllum þessum leikurum í framtíðinni.

Utan lagnarinnar á trommuleikaranum þótti mér leikstjórn og öll umgjörð sýningarinnar prýðilega unnin. Raunsæislegur tónninn í verkinu komst vel til skila og leikmynd virkaði vel sem æfingahúsnæði hljómsveitar í kjallara. (Kuldinn var líka alveg ekta.)

Verkið þótti mér hins vegar þunnur þrettándi. Það er sagt "endurspegla það ástand að vera unglingur." Í fyrsta lagi þá finnst mér "ástandið að vera unglingur" nú bara nokkuð einstaklingsbundið á milli unglinga. Unglingar þykja mér jafnmisjafnir og þeir eru margir og það fer í taugarnar á mér að menn ætli að afgreiða þá sem "ástand". Jújú, þarna er á ferðinni stutt verk (sem er reyndar kostur) um strák sem hættir í hljómsveit. Inn í spilar hálfgert einelti (manni er reyndar algjörlega hulin ráðgáta hverng hann gat nokkurn tíma verið í hljómsveit með trommuleikaranum, til að byrja með) valdabarátta og upp koma nokkur tilfinningagos. En ástæður þessa eru ýmist óræðar eða yfirborðskenndar.

Við kynnumst fortíð Stráksins í gegnum samtal milli hans og stelpunnar í upphafi sem er svona: "Jæja, nú skulum við koma upplýsingum til áhorfenda með því að segja hvoru öðru hluti sem við vitum bæði." -samtal. Hún hefur síðan allt of fyrirsjáanleg áhrif á samskipti hans við aðra hljómsveitarmeðlimi. Trommuleikarinn á sennilega að vera svona týpískt hrekkjusvín. En sú staðreynd að hann kemur bara beint inn og er leiðinlegur gerir það bara að verkum að maður skilur ekki að neinn nenni að vera í hljómsveit með honum. Maður veltir því líka ósjálfrátt fyrir sér hvort hljómsveitaræfingar hafi semsagt bara farið þannig fram að trommarinn lemur gítarleikarann á meðan hinir horfa á. Þá skilur maður nú að þetta sé ekkert sérstaklega góð hljómsveit.

Það getur vel verið að allt þetta drama eigi að tákna tilfinningarót sem er til komið af hormónatruflunum unglingsins. Og vel má vera að þetta sé raunsatt. En ekki er það áhugavert.  Ég vona, áhorfenda á Fosse-hátíð vegna, að hann finni sér alla jafna áhugaverðari vinkla á viðfangsefni sín.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir