selfossLeikfélag Selfoss
Birtíngur eftir Voltaire í leikgerð Hafnarfjarðarleikhússins
Leikstjóri: Ólafur Jens Sigurðsson

„Bjart og fallegt“. Það fyrsta sem kom mér í hug þegar ég settist niður í leikhúsinu við Sigtún á Selfossi og beið eftir Birtíngi. Ljósmálað svið, litmildu munstri varpað á bakvegg, hvítir rampar á sviðsgólfinu og ljósklædd leikkona í hlutverki myndastyttu á stalli. Já og klingjandi sembaltónar.

Þorgeir Tryggvson skrifar um sýningu Leikfélags Selfoss

Þessi blær hélt út alla sýninguna og myndaði framúrskarandi umgjörð um þetta „heimspekilega ævintýri“ eins og komist er að orði í leikskrá. Ramparnir tveir mynduðu sífellt nýjar myndir, alltaf óvæntar og stundum stórsnjallar. Myndvörpunin var ýmist skemmtilega afstrakt eða raunsæislega nákvæm og bjó í samvinnu við rampana hin fjölmörgu sögusvið á sannfærandi hátt. Búningar og gerfi þrekvirki. Og þó að semballinn næði stundum að þvælast fyrir textanum þá var stemmingin sem hann gaf auðvitað hárrétt. Öll þessi gegnumhugsaða og listfenga umgjörð er stór fjöður í hatt allra þeirra sem að henni stóðu.

Bók Voltaires er hugsuð sem skot á hinn hérumbil gleymda heimspeking Leibnitz og hugmyndir hans um að við byggjum hinn besta heim allra heima. Þó svo fæstir þekki þessa deilu þá er ferðasaga Birtíngs um táradalinn eitthvað sem allir geta sótt eitthvað í. Því auðvitað má það furðu gegna hvað hörmungar, illska og heimska eru sigursælar höfuðskepnur hér á jörð. Hvernig stendur á því að við gefumst ekki bara upp? Fávitaleg heimssýn spekingsins Altúngu leiðir lærisveininn Birtíng í allskyns ógöngur, en á endanum finnst svarið. Eða svar, allavega.

Og svo má auðvitað ekki gleyma að þetta bras á honum er á köflum óborganlega fyndið – enn þann dag í dag. Íslenskun (eða „laxnesskun“) nóbelsskáldsins á sinn þátt í því. Mér hættir t.d. bara ekki að finnast orðið „rauðrolla“ fyndið, hversu oft sem ég heyri það.

Ólafur Jens Sigurðsson, leikstjóri,  hefur ákveðið að leggja upp með galsafenginn og lausbeislaðan leikstíl og Leikfélag Selfoss á svo sannarlega krafta í sínum röðum til að nýta veiðileyfin sem þau fá hér. Fyrir vikið er sýningin fjörug, hröð og kraftmikil – björt í stíl við útlitið og bjartsýnina.

Á stöku stað kostaði stuðið samt það að mikilvæg atriði drukknuðu í skvaldri eða hurfu í fyrirgangi hópsins. Ballansinn milli lifandi hópvinnu og nákvæmrar kóreógrafíu verður seint fundinn, en hér þótti mér stundum halla á agann. Þetta bitnaði svolítið á Brynjólfi Ingvarssyni sem kornungur og tiltölulega óreyndur fær það verkefni að vera burðarásinn í svolítið vanþakklátu titilhlutverkinu. Sérstaklega í byrjun þar sem brunað var fullhratt yfir sögu og fyrirgangurinn kaffærði aðalatriðin. En svo óx Brynjólfi ásmegin og var orðinn þónokkuð myndugur og sannfærandi í síðari hlutanum.

Allir aðrir bregða sér í fjölmörg hlutverk og er það allt ágætlega leyst. Ég læt mér nægja að staðnæmast við nokkur „highlight“. Ástmærin Kúnígúnd Erlu Dan var skýrt mótuð og sniðug, Hrefna Clausen náði að búa til mátulega skrítna kerlingu, Altúnga varð hæfilega óþolandi hjá Bjarna Stefánssyni og Kakambus fylgdarmaður og Marteinn bölsýnismaður voru frábærir hjá Stefáni Ólafssyni og F. Ella Hafliðasyni.

Birtingur hjá Leikfélagi Selfoss er sannfærandi listaverk, þar sem hugað hefur verið að öllum þáttum. Bráðskemmtileg túlkun á þessari sígildu gamansögu. Heimurinn er aðeins betri fyrir vikið. Takk fyrir það.

Þorgeir Tryggvason

{mos_fb_discuss:2}