Föstudagskvöldið 23.febrúar síðastliðið frumsýndi Freyvangsleikhúsið leikritið Prímadonnurnar eftir Ken Ludwig í þýðingu Sögu Jónsdóttur sem einnig leikstýrir verkinu. Þetta er í fyrsta skipti sem þetta verk er sett upp hér á landi.

Freyvangsleikhúsið er eitt besta áhugaleikfélagið á landinu. Félagið hefur á að skipa afar góðan leikhóp, mjög góða og reynda leikara sem hafa verið lengi að og sífellt dettur inn nýtt, kröftugt og hæfileikaríkt fólk. En það sem er sennilega sterkasta hlið Freyvangsleikhússins er baklandið og tryggir áhorfendur. Styrkur sýningarinnar er falinn í góðri leikstjórn og góðum leikurum. Saga Jónsdóttir er mjög góð að ná því besta út úr leikurum og stilla þá saman miðað við verkefnið hverju sinni. Að mestu dveljum við í rúmgóðri stofu í stærsta húsinu í York, Pennsylvaníu. Florence er við dauðans dyr og er að leita að glötuðum ættingjum sínum svo að hún geti ánafnað þeim auðæfunum. Margir eru um hitunina og mikið gengur á.

Sýningin fer hægt en nokkuð örugglega af stað og það er ekki við neinn að sakast um þessa uppbyggingu nema þá höfundinn. Undirritaður sá aðra sýningu á verkinu og er þess fullviss að sum atriði eiga eftir að slípast og fyrri hlutinn fái betri ásýnd eftir 2 -3 sýningar. Þegar sýningin er komin vel af stað fer hún á flug og er stórgóð.

Leikhópurinn í Prímadonnum er góð blanda af nýjum og gömlum andlitum. Rósa Björg Ásgeirsdóttir sem Meg er alveg hreint frábær og það er hrein unun á að horfa og alveg ljóst að framtíðin er hennar. Stefán Guðlaugsson fer á kostum sem presturinn Duncan, Stefán er frábær gamanleikari og t.d í símasenunum kemur berlega í ljós reynslan og hæfileikarnir. Persóna hans er svo vel teiknuð að það ætti að huga að því að stoppa hana upp eftir að sýningum lýkur. Tvö erfiðustu hlutverkin í sýningunni eru í höndum þeirra Sverris Friðrikssonar og Sindra Svans Ólafssonar þeir skila sínu vel, Sverrir er jafngóður allan tímann en á eftir að fínpússa betur muninn á kynjunum. Sindri Svan leggur sig fram og hefur verið natinn við sitt hlutverk, framan af var hann stífur í skrokknum en em leið og hann slakaði á sat hann vel í hlutverkinu og átti sviðið um tíma. Ánægjulegt var að sjá Guðrúnu Höllu Jónsdóttur formann Bandalags íslenskra leikfélaga kljást við þá gömlu “Florence” hlutverkið er eins og skrifað fyrir hana og afraksturinn eftir því. Jónsteinn Aðalsteinsson leikur doktorinn, hann var dálítið lengi að komast af stað en átti frábæra spretti enda er kappinn einn af betri áhugaleikurum landsins. Svana Ingólfsdóttir og Haukur Guðjónsson eru að ég held nýliðar hjá Freyvangi og skiluðu sínu vel og áttu nokkur skemmtileg kómísk augnablik.

Leikmynd Þórarins Blöndal er snyrtileg, vel unnin og hæfir verkinu, t.d setti hurðin út í garðinn og umgjörð hennar góðan svip á heildina. Sama er hægt að segja um búningana enda valinn maður í hverju rúmi í þeirri deildinni í Freyvangi, að vísu hefði ég viljað sjá betri hárkollur þar sem þær eru notaðar.

Júlíus Júlíusson