Það er full ástæða að vara klígjugjarna og fólk með auðsærða blygðunarkennd við því að fara að sjá Jón og Hólmfríði – frekar erótískt leikrit í þremur þáttum eftir franska leikskáldið Gabor Rassov, því þar fljóta hverskyns líkamsvessar í stríðum straumum. Hinir, sem harðari eru af sér og hafa gaman af sótsvörtum absúrdhúmor, ættu hins vegar ekki að láta þetta verk fram hjá sér fara að mati mati Ármanns Guðmundssonar gagnrýnanda hjá leiklist.is.
Það má telja fullsannað, nú eftir þrjár uppsetningar, að tilraun Borgarleikhússins með að hafa fastan leikhóp á Nýja sviðinu hefur tekist. Sýningar hópsins hafa verið hver annarri skemmtilegri og eru þær tvær sem eftir á að frumsýna í vetur með helstu tilhlökkunarefnum leikársins. Benedikt Erlingsson stendur upp úr leikstjórastólnum í Jón og Hólmfríði og Halldóra Geirharðsdóttir hlammar sér í hann og er ekki annað að sjá en ágætlega fari um hana þar. Alla vega bendir þessi frumraun hennar ekki til annars. Sýningin byrjar reyndar fremur rólega á meðan verið er að kynna persónur til sögunnar en nær svo góðu flugi og heldur því lengst af. Það er helst undir lokin sem sýningunni fatast örlítið flug en það skrifast nú sennilega meira á höfund en leikhóp eða leikstjóra.

ImageVerkið mætti skilgreina sem nútíma ólíkindafarsa þar sem ekkert er ómögulegt og það sem virðist ótrúlegast er einmitt það næsta sem gerist. Húmorinn er afar gróteskur og líkamlegur og Halldóra er síst að draga úr splatternum (enda sjálf gamall splattertrúður). Þættirnir þrír eru þó misfyndnir, einn alveg myljandi fyndinn en hinir ná ekki alveg sömu hæðum. Leikhópurinn fer oft á tíðum á kostum og mæðir mest á þeim Sóleyju Elíasdóttur og Gunnari Hanssyni í titilhlutverkunum. Sóley er yndisleg og einlæg sem hin ofurjákvæða og eftirsótta Hólmfríður og Gunnar alveg unaðslega leiðinlegur sem hinn talnaglöggi tannlæknir sem ganga þarf í gegnum hvert stóráfallið á fætur öðru. Innkoma hans eftir hina misheppnuðu tannkýlisaðgerð hlýtur að verða ein sú eftirminnilegasta á leikárinu.

Þór Tulinius á mjög fína spretti sem illdrepanlega illyrmið Eggert, stjúpfaðir Jóns, og jaðrar stundum jafnvel við að maður finni til með þessari mann(og and)fýlu. Halldór Gylfason er í hlutverki kvennaljómans Andrésar, frænda Hólmfríðar og (eins og upplýsist strax á 9. mínútu verksins) líffræðilegs föður Jóns. Halldór túlkar þennan „fullkomna frænda” skemmtilega og þá ekki síður öfuguggan bróðir hans sem lítur við í endasleppa heimsókn. Þó er það Harpa Arnardóttir sem stelur senunni í hvert sinn sem hún birtist á henni. Hvort heldur sem Marta, hin ástríðufulla móðir Jóns og ástkona Andrésar (flókið? bíðiði bara) eða lesbíska ryksugusölukonan þá virkar hún einhvern veginn alltaf 100% sönn í sínum hlutverkum þegar hjá hinum leikurunum gætir stundum ofurlítillar tilgerðar í þeim ýkta leikstíl sem Halldóra velur verkinu.

Image Öll umgjörð verksins er prýðilega útfærð, leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar og Úlfs Grönvold styður vel við verkið og skiptingar á milli þátta einfaldar og vel útfærðar. Sama má segja um búninga Snorra Freys, lýsingu Kára Gíslasonar og hljóðmynd Ólafs Arnar Thoroddsens, allt vinnur saman þetta að því að gera þetta yfirdrifna leikrit að heilsteyptri og skemmtilegri sýningu. Punkurinn yfir i-ið er svo tónlist Hr.inga.R sem er í senn hallærisleg og hárrétt.

Það er sennilega full ástæða til að vara klígjugjarna og fólk með auðsærða blygðunarkennd við því að fara að sjá Jón og Hólmfríði – frekar erótískt leikrit í þremur þáttum. Hinir, sem harðari eru af sér og hafa gaman af sótsvörtum absúrdhúmor, ættu hins vegar ekki að láta þetta verk fram hjá sér fara.

Ármann Guðmundsson

Image Jón og Hólmfríður eftir Gabor Rassov
Frumsýnt á Nýja sviði Borgaleikhússins 4. október 2002
Leikarar. Gunnar Hansson, Halldór Gylfason, Harpa Arnardóttir, Sóley Elíasdóttir og Þór Tulinius
Þýðing: Guðrún Vilmundardóttir.
Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen
Lýsing: Kári Gíslason.
Leikmynd: Snorri Freyr Hilmarsson / Úlfur K. Grönvold.
Búningar: Snorri Freyr Hilmarsson
Leikstjórn: Halldóra Geirharðsdóttir