Um sl. helgi var Mojito, nýtt leikverk eftir Jón Atla Jónasson, frumsýnt í Tjarnarbíói í leikstjórn höfundar. Hér er á ferðinni glænýtt, bráðfyndið og sjóðandi heitt leikverk úr íslenskum raunveruleika. Í verkinu er fjallað um gildismat síðustu ára, gildismat góðærisins og hvaða gjald það í raun og veru felur í sér fyrir þá sem aðhyllast það. Hér þarf að rifja upp veisluna og gera ákveðin reikningsskil. Og að sjálfsögðu er spurningin hvort ískaldur Mojito nægi til að kæla blóðið eitthvað niður.

Tveir menn hittast fyrir tilviljun og annar þeirra fer að rifja upp heimsókn sína á indverks/pakistanskan veitingastað í Reykjavík sem endaði með ósköpum. Glös voru brotin, líka borð og stólar. Slagsmál brutust út og grátur og gnístran tanna fylgdu í kjölfarið.

Jón Atli Jónasson er fæddur í Reykjavík árið 1972. Hann hefur meðal annars samið leikritin 100 ára hús fyrir Frú Emilíu, Krádplíser fyrir Reykvíska Listaleikhúsið, Brim fyrir Vesturport, Draugalest fyrir Leikfélag Reykjavíkur, Rambó 7 fyrir Þjóðleikhúsið. Mindcamp og Democrazy ásamt Agli Heiðari Antoni Pálssyni fyrir CampX leikhúsið í Kaupmannahöfn. Hann er einn af stofnendum Mindgroup sem eru evrópsk regnhlífasamtök leikhúsfólks sem vinna að tilraunakenndri leiklist. Síðustu verkefni Jóns Atla fyrir Borgarleikhúsið eru Þú ert hér og Góðir íslendingar sem hann gerði ásamt Mindgroup og Djúpið, rómaður einleikur sem hann skrifaði og leikstýrði á Litla sviðinu.

Leikarar eru Stefán Hallur Stefánsson og Þórir Sæmundsson.

{mos_fb_discuss:2}