Á vit ævintýranna hjá Leikfélagi Selfoss
Þrjú ævintýri eftir H.C.Andersen, Pál J. Árdal og Davíð Stefánsson
Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir

Það er nú svo með okkur barnlausa fólkið, við þykjumst alltaf þurfa afsökun fyrir að fara á svokallaðar barna- eða fjölskyldusýningar. Þannig höfum við líklega rifið upp meðalaldurinn í Litla leikhúsinu á Selfossi nú á fimmtudag, þar sem við sátum. Fjögur fullorðin börn. 

Sýningin Á vit ævintýranna  í leikstjórn Ágústu Skúladóttur er 84. verkefni Leikfélags Selfoss, sem er sextugt í ár. Strax í andyrinu var ljóst að ævintýraheimur biði hið innra. Furðulega klæddar konur með tambúrínur og lugtir tóku á móti okkur, buðu okkur velkomin í salinn. Þar inni sat maður og lék á sög. Fjórði veggurinn var brotinn og áhorfendur urðu tafarlaust eitt með töfraheimi leikaranna. Þarna í upphafi gafst einnig færi á að virða fyrir sér í návígi skrautlega búningana, sem hannaðir eru af Ágústu Skúladóttur, Hafdísi Steingrímsdóttur og Iðunni Óskarsdóttur. Mörg lög af fötum með einkennilegu sniði og ótal vösum og útskotum sem hver veit hvað leynist í – eins og sýningin framundan. 

Stemningin í salnum var afslöppuð, á þann eina hátt sem stemning getur verið þegar leikið er undir á sög. Fljótlega bættust fleiri hljóðfæri við hljóðheiminn, undarlega kunnugleg og framandi í senn. Píanó, þríhorn, niðursuðudósir. Tónlist og hljóðmynd verksins er í höndum þeirra Guðnýjar Láru Gunnardóttur og Stefáns Arnar Viðarssonar. Hljóðfæraleikur og söngur bindur sýninguna saman og brúar bilið milli sagnanna sem sagðar eru. Leikhljóðin eru sérstaklega skemmtileg, sem í einfaldleika sínum ná að kitla hláturtaugarnar og undirstrika ákveðna þætti sýningarinnar. Hvort leikið er á hljóðfæri, snakkpoka eða kreistudýr. Eins má nefna ljósahönnun og liti Benedikts Þórs Axelssonar sem nýtti skæra, hreina grunnliti á bláum grunni á áhugaverðan hátt, svo minnti á sýningar Roberts Wilson. 

Settar eru á svið þrjár kunnuglegar sögur, sú fyrsta ævintýri H.C. Andersen af þeim Litla-Kláusi og Stóra-Kláusi í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar. Ýmis atriði hennar voru ljótari en mig minnti og það gladdi mig sannarlega að ekki var dregið úr ljótleika sögunnar. Nafnarnir lifnuðu við í meðförum þeirra Birtu Sólveigar Söring Þórisdóttur og Emmu Guðmundsdóttur. Þeirri síðarnefndu tókst að gefa Stóra-Kláusi þann dimma og luralega blæ sem honum ber og skapa þannig nauðsynlegt mótvægi við dúndrandi orku hins barnslega en snjalla Litla-Kláusar. Birta Sólveig hefur til að bera kraft og fimi í bland við smellin svipbrigði og frábæra söngrödd. Í þessum hluta verksins koma flestir leikarar við sögu og hópatriði eru vel heppnuð, en augljóslega er sótt til leikstílsins Commedia dell´arte.  Áhorfendur fengu tilfinningu fyrir taktfestu og samræmi hópsins, sem má hrósa sérstaklega þar sem eftir sýninguna kom í ljós að tveir úr hópnum voru fjarri góðu gamni og varamönnunum Kolbrúnu Lilju Guðnadóttur og Stefáni Ólafssyni hafði verið skipt inná. 

Þegar Litli-Kláus hafði gabbað nafna sinn til ólífis birtust kunnuglegar stöllur á sviðinu. Þær Halldóra Ósk Öfjörð og Jónheiður Ísleifsdóttir sem tekið höfðu á móti áhorfendum í upphafi kvölds stigu nú fram prýddar trúðsnefum og tilkynntu með stolti; „En hvað það var skrýtið“, eftir Pál J. Árdal. Ánægjukliður fór um salinn, því hér hittu margir gamlan vin. Það getur oft verið eldfimt að færa kunnuglegar sögur í annan búning, en hér var gripið til söguleikhúss með skrauti. Jónheiður hefur sérlega notalega segð og upplestur hennar á ævintýrinu mikla var bæði átakalaus og heimilislegur. Hún varð augljóslega litla stúlkan og auðvelt var að lifa sig inn í ævintýri hennar. Halldóra bætti við leikhljóðum og leikhlutum auk þess að túlka aðrar persónur sögunnar á einfaldan en eftirminnilegan hátt. Leikmunir voru allir geymdir í einni töfratösku og samanstóðu af hversdagslegum hlutum sem með ofurlitlu ímyndunarafli öðlast nýtt líf í leikjum barna. Í þessum hluta skein kjarni sýningarinnar hvað best í gegn. Einfaldleiki og leikur með það sem hendi er næst. Auðvitað má endurtaka það sem er fyndið – það verður bara fyndnara. Hvað sem er getur orðið hvað sem er – ef ímyndunaraflið fær að ráða. 

Síðasti hluti sýningarinnar var í svipuðum stíl og miðhlutinn. Þær Halldóra og Jónheiður lásu þá upp Sálina hans Jóns míns eftir Davíð Stefánsson frá Fagraskógi. Guðfinna Gunnarsdóttir, sem einnig er einn af aðstoðarleikstjórum verksins, fór á á þegjandi kostum í hlutverki kerlingarinnar, sem af skyldurækni laumar Jóni sínum til himna – í fjölnota innkaupapoka. Samspil leikmuna og búninga tókst þarna prýðisvel og gráglettni ljóðsins skilaði sér alla leið. 

Þessi fallega umgjörð utan um kunnugleg ævintýrin fékk lestrarstundir barnæskunnar til lifna við, mikilvægi bókarinnar og þess að segja sögur – með öllum tiltækum ráðum, er líklega hennar helsti boðskapur. Það gerir leikhópurinn með orðum og atburðum, en fyrst og fremst af hjartans einlægni. Að sýningu lokinni var áhorfendum boðið upp á svið, til að upplifa töfrana á eigin skinni. Fullorðnu börnin fóru sömu leið, með barnið ofarlega í hjartanu.

Harpa Rún Kristjánsdóttir