Jónína Kristjánsdóttir, fyrrverandi formaður Bandalags íslenskra leikfélaga, lést þann 1. október s.l. 96 ára gömul.

Árið 1963 byrjaði Jónína að leika með Leikfélagi Keflavíkur og var hún formaður félagsins til fjölda ára. Í kjölfarið sótti hún sér þekkingu á sviði leiklistar og leikstjórnar á fjölmörgum námskeiðum sem haldin voru víða á norðurlöndum. Hún starfaði síðan sem leikstjóri og leikstýrði yfir 20 leikritum víðs vegar um landið. Jónína var formaður Bandalags íslenskra leikfélaga frá 1974 til 1980, sat fyrir hönd þess í stjórn Norræna áhugaleikhúsráðsins, Nordisk Amatör Teaterråd, tók þátt í stofnun Menningarsambands aldraðra á Norðurlöndum, Samnordisk Pensonist Kultur, og sat í stjórn þess 1982-1991. Hún var ein af stofnendum Félags eldri borgara á Suðurnesjum og var lengi formaður, hún var einnig gjaldkeri í stjórn Landsambands aldraðra. Þá var hún ein af stofendum kórs eldri borgara á Suðurnesjum, Eldey.

Jónína verður jarðsungin 19. október n.k. frá Keflavíkurkirkju.

Stjórn, aðildarfélög og starfsfólk Bandalags íslenskra leikfélaga þakka Jónínu af alhug fyrir störf hennar í þágu hreyfingarinnar og sendir fjölskyldu hennar innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Jónínu Kristjánsdóttur.