Sviðslistahópnum 16 elskendur hefur verið boðið að taka þátt sem fulltrúar Íslands á Norrænum sviðslistadögum sem haldnir verða í Færeyjum 24. – 28. maí næstkomandi. Þema sviðslistadaganna í ár er gagnvirkni/áhorfendaþátttaka og voru 16 elskendur því beðnir um að endurvekja sýninguna „ÍKEA ferðir“ – sem var síðast sýnd fyrir átta árum, síðsumar 2008. Sú sýning vakti mikla athygli fyrir nýstárlega nálgun á leiklistarformið, framúrstefnuleg efnistök og fyrir að spá fyrir um hrun íslenska hagkerfisins. Tveimur mánuðum eftir frumsýningu „ÍKEA ferða“ þurfti forsætisráðherra að blessa landið.

Nú – átta árum síðar – hefur 16 elskendum verið boðið að sýna „ÍKEA ferðir“ á Norrænum sviðslistadögum í Færeyjum. Það verður spennandi að sjá hvort að íslenska hagkerfið þoli nýjar sýningar af „ÍKEA ferðum“… hvað þá Færeyjar!

Sviðslistahópurinn 16 elskendur er samstarf listamanna úr ólíkum geirum, leiklist, myndlist, tónlist, danslist og gjörningalist. 16 elskendur setja upp sýningar þar sem mörk hefðbundinna leiksýninga eru máð og þannig látið reyna á snertiflöt raunveruleika og sýningar. Í efnistökum sínum leitast 16 elskendur við að prófa og teygja orðræðu líðandi stundar og bjóða áhorfendum í „tilraunastofu“ þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin, þar sem áhorfendur og leikendur skoða samsetningu þjóðfélagsins í sameiningu.

16 elskendur hafa sýnt verk sín á Listahátíð í Reykjavík og á alþjóðlegu leiklistarhátíðinni Lókal, auk þess sem hópurinn hefur tekið þátt í samstarfi við Þjóðleikhúsið, Þjóðmenningarhúsið og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands. 16 elskendur voru tilnefnd til tveggja Grímuverðlauna árið 2012; leikskáld ársins og sproti ársins, fyrir leiksýninguna Sýning ársins, og hlutu verðlaunin fyrir sprota ársins.