Nýtt íslenskt leikrit, Dubbeldusch, eftir Björn Hlyn Haraldsson verður frumsýnt hjá LA á fimmtudag, 13. mars. Hér er á ferðinni ljúfsárt verk um mann sem stóð frammi fyrir erfiðu vali fyrir þrjátíu árum en nú bankar fortíðin upp á. Björn Hlynur leikstýrir verkinu sjálfur en Hilmar Jónsson leikur aðalhlutverkið en hann hefur ekki leikið að ráði á sviði síðan blómlegur leikstjórnarferill hans hófst.

Nokkrum sinnum á lífsleiðinni gerast atburðir í lífi okkar sem breyta öllu. Í kvöld kemur einkasonurinn í sumarbústað fjölskyldunnar og kynnir nýja unnustu fyrir foreldrum sínum. Smátt og smátt rennur upp fyrir föðurnum að með komu stúlkunnar knýr ljúfsár fortíðin dyra, þrjátíu ára gamalt leyndarmál sem hann hefur reynt að gleyma. Þá stóð hann frammi fyrir erfiðu vali og enn þann dag í dag veit hann ekki hvort hann valdi rétt, „hvað ef…?“

Dubbeldusch er leikrit um ástina, lífið, tilviljanir og erfiða valkosti. Leikritið er frumraun leikarans Björns Hlyns Haraldssonar sem leikskáld. Sýninguna vinnur LA í samstarfi við leikhópinn Vesturport sem vakið hefur verðskuldaða athygli víða um heim á undanförnum árum. Meðal uppsetninga Vesturports eru Rómeó og Júlía, Brim, Woyzeck, Ást og Kommúnan.

Höfundur og leikstjóri: Björn Hlynur Haraldsson. Leikmynd og búningar: Börkur Jónsson. Lýsing:  Björn Bergsteinn Guðmundsson. Tónlist og hljóðmynd: Frank Hall. Leikarar: Hilmar Jónsson, Harpa Arnardóttir, Davíð Guðbrandsson, María Heba Þorkelsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Dubbeldusch er sett upp í samstarfi við Flugfélag Íslands.

Dubbeldusch verður frumsýnt 13. mars í Rýminu. Rýmið er samstarfsverkefni LA og TM en fyrr í vetur voru Ökutímar sýndir þar. Þeir viku fyrir fullu húsi til að rýma til fyrir Dubbeldusch. Ökutímar verða sýndir á fjölum í Reykjavík síðar á árinu.

{mos_fb_discuss:2}