Alla jafna finnst mér mannvonska að skrifa leikrit sem tekur mikið meira en einnoghálfan klukkutíma að sýna. Venjulegast er afturendum áhorfenda farið að misbjóða leikhússætin eftir þann tíma. Aukinheldur sem nútímamannskepnan á erfitt með að halda athyglinni í mikið meiri tíma en tekur að sýna einn stjónvarpsþátt. Fínn Koddamaður
 (Eða kannski er það bara ég. Veit það ekki alveg.)

Þess vegna er alveg þrælskemmtileg tilbreyting þegar mönnum tekst að brjóta þessa kenningu algjörlega á bak aftur og halda manni spenntum og ánægðum á óþægilegu sætisbrúninni í næstum 3 tíma án þess að maður svo mikið sem reyni að líta á klukkuna. Þetta kom fyrir mig.

Ég hef heyrt mikið og gott um leikskáldið Martin McDonagh og ber mikla virðingu fyrir mörgum sem að þessari sýningu koma. Þess vegna fór ég með alveg heilmiklar væntingar. Það er venjulega þá sem ég kem alveg bandpirruð út þar sem sýningar sem þannig er ástatt um standa engan veginn undir mínum risastóru væntingum. Ekki í þetta skipti, aldeilis.

Leikritið er alveg svakalega gott. Maður hefur stanslaust áhuga á hvað gerist næst. Húmorinn er svartur og fyndinn. Í verkinu eru sagðar langar sögur, og það virkar. Sýningin dettur alls ekkert niður þó langir kaflar séu sagðar af sögumanni og myndskreyttar. Meira en að segjaða. Þýðingin pirraði mig ekki einu sinni neitt (og það gera þýðingar gjarnan). Hvert einasta orð í handritinu virkar. Það er náttúrulega ekki síst snilldarleikstjórn Þórhalls Sigurðssonar og glæsilegum leik allra hlutaðeigandi að þakka. Finn hjá mér mikla þörf fyrir að reifa yfir aðalleikurum hverjum fyrir sig, í stafrófsröð.

Arnar Jónsson: Lék fyndna og kaldhæðna rannsóknarlögreglumanninn af stakri snilld. Það er náttúrulega ósanngjarnt hvað manni er farið að þykja lítið til um þar sem maður gerir hreinlega ekki ráð fyrir að hann leiki öðruvísi. Hlutverkið hans er kannski ekki sérlega átakamikið, en hann rúllar því upp.

Rúnar Freyr: Leikur af meiri innlifun og tilfinningu en ég hef áður séð hann gera. Sannast sagna ekki einn af mínum uppáhaldsleikurum, hingað til, en tók talsvert stökk uppávið á vinsældarlistanum með þessari frammistöðu.

Sigurður Sigurjónsson: Lék skemmdan lögreglumann með hugsjónir af skemmtilegri vanstillingu. Hann og Arnar mynda skemmtilegan kontrast. Ég held reyndar alltaf soldið uppá Sigga sem leikara og hann stóð algjörlega undir mínum væntingum.

Þröstur Leó: Er tvímælalaust stjarna sýningarinnar. Leikur hlutverk bilaða bróðurins æðislega. Hefði eflaust verið hægt að fara ótal aðrar leiðir með hann, hann virkaði soldið einhverfur, en mér fannst það virka fínt.

Leikmynd og lausnir þóttu mér góðar. Hávaðinn í leikmyndinni hræddi mig oft og sögurnar sem leiknar voru bakatil á sviðinu komu einstaklega vel út.

Það var bara eitt. (Það er alltaf eitt.) Mér þóttu búningarnir… skrítnir. Ókei, persónur Arnars og Sigurðar eru að mörgu leyti andstæður. Maður nær því alveg án þess að annar sé í hvítum jakkafötum en hinn í svörtu leðri. Og fótabúnaður Arnars þótti mér undarlegur og varð oft starsýnt á. Þó svo að leikurinn gerist í einhverri tíma- og staðleysu, hvaða rannsóknarlögreglumaður gengur í hvítum semí-ballettskóm og sokkabuxum? Og persóna Þrastar Leós var sóttur í skólann. Akkurru er hann í sextugum jakkafötum? Og því í veröldinni er hann svona undarlega búinn innanundir? Búningarnir þóttu mér í það heila vera soldið eins og þeir hefðu verið sóttir í geymsluna með einhverja óþarfa undirstrikun á andstæðum og samstæðum karaktera að leiðarljósi. Mér fannst það nú soldið klént, verð ég að segja. Andstæður og samstæður persónanna voru alveg ljósar, án þessara stæla. Þeir trufluðu bara. Hefði viljað sjá alla í „venjulegum“ fötum, bara.

En þrátt fyrir það. Stórgóð sýning. Húrra fyrir verkefnavalinu, leikstjórninni og snilldinni allri. Koddamaðurinn rúlar. Allir ættu að sjá.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir