Um helgina frumsýndi Leikfélagið Sýnir ofbeldisleikinn Stútungasögu í Heiðmörk. Verkið er eftir Ármann Guðmundsson, Hjördísi Hjartardóttur, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, og hefur að mér skilst verið sett upp um 10 sinnum á álíka mörgum árum. Það er ekki að ástæðulausu, þetta að einstaklega skemmtilegur texti sem stendur alltaf fyrir sínu, hefur allavega gert það í þeim fjórum uppsetningum sem ég hef séð.
Þetta er í fyrsta skipti sem leikurinn er settur upp utan dyra. Verkið gerist mestmegnis úti þannig að það á vel við. Hins vegar eru aðstæður í Heiðmörk nokkuð erfiðar, leikið var allt í kringum áhorfendur og ekki var alltaf auðvelt að sjá það sem fram fór. Einnig fóru yngri sýningargestir að taka nokkuð virkan þátt í sýningunni þegar á leið, og það truflaði nokkuð einbeitingu mína sem áhorfanda, þó svo að leikarar létu sér hvergi bregða þó þeir þyrftu stundum nánast að hrifsa vopn sín og verjur úr höndum ungra áhorfenda.

Leikurinn var mjög jafn og mjög faglegur á öllum póstum. Fremst meðal jafningja þóttu mér þó Nína B. Jónsdóttir og Sigurgeir Hilmar í hlutverkum Noregskonungs og drottningar og eins stóðu Guðmundur Lúðvík Þorvaldsson og Snorri Engilbertsson sig með eindæmum vel í hlutverk fósturbræðranna Atla og Haka. Huld Óskarsdóttir var einnig eftirminnileg í hlutverki hinnar berdreymnu Jódísar. Annars fannst mér allir standa sig mjög vel og sá hvergi veikan hlekk í leiknum. Leikstjórinn, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, hefur valið uppsetningunni nokkuð trúðslegan leikstíl sem gengur vel upp, vinnur með verkinu og leikarar virtust hafa góð tök á. Staðsetningin sem sýningunni var valin í Heiðmörk var ágæt á sumum póstum, en þó hefði mátt taka meira tillit til útsýnis áhorfenda yfir leikrými en nokkuð erfitt var að fylgjast með, sérstaklega þar sem „sviðið“ var lágt og jafnvel leikið sitjandi.

Hin litríka stefna í búningahönnun var góð og samræmdist vel hinum trúðslega leik, en þó hefði að ósekju mátt ganga lengra með hana. Nútímaflíkur innan um ævintýrablæinn trufluðu mig.

En í það heila, stórskemmtileg og fagmanlega unnin sýning sem Sýnarar geta verið stoltir af. Óhætt að mæla með því að menn geri sér ferð í Heiðmörkina og sjái herlegheitin.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir