Leikfélag Fljótsdalshéraðs sýnir um þessar mundir gamanleikinn Sex í sveit, eftir Marc Camoletti í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar.  Oddur Bjarni Þorgkelsson leikstýrir.  Leikritið er sýnt á Iðavöllum. Gerður hefur verið góður rómur að sýningunni en Sigurður Ingólfson var á staðnum:

Ég er yfirleitt lítið hrifinn af försum með tilheyrandi hlaupum og hurðaskellum og þess vegna var þetta svo gaman.  Það er fátt yndislegra en að éta ofan í sig heimskulega fordóma.  Þetta er bráðsmellin og vel unnin sýning og þarna unnu ýmsir leiksigra.
lf_logo.jpg
Leikfélag Fljótsdalshéraðs

Sex í Sveit eftir Marc Camoletti
Leikstjórn: Oddur Bjarni Þorkelsson
Sýnt á Iðavöllum

Leikfélag Fljótsdalshéraðs sýnir um þessar mundir gamanleikinn Sex í sveit, eftir Marc Camoletti í þýðingu Gísla Rúnars Jónssonar.  Oddur Bjarni Þorgkelsson leikstýrir. Leikritið er sýnt á Iðavöllum.  Það er skemmst frá því að segja að sýningin kom mér yndislega á óvart.  Ég er yfirleitt lítið hrifinn af försum með tilheyrandi hlaupum og hurðaskellum og þess vegna var þetta svo gaman.  Það er fátt yndislegra en að éta ofan í sig heimskulega fordóma. Þetta er bráðsmellin og vel unnin sýning og þarna unnu ýmsir leiksigra.  Benedikt er frábærlega leikinn af Garðari Hallfreðssyni sem nær að vera á köflum dásamlega siðlaus. Friðjón Magnússon fer líka á kostum í óendanlega taugaveikluðum Ragnari sem tekur á sig allar syndir Benedikts. Jódís Skúladóttir var afskaplega traust sem Þórunn, eiginkona Benedikts, fljót að dæma en lítur fyllilega framhjá eigin löstum. Anna Björk Hjaltadóttir var kokkurinn Sólveig og átti dásamlega spretti, Sigurlaug Gunnarsdóttir var urrandi sexí Sóley, náði líka að vera fullkominn hálfviti á köflum en þess á milli bara manneskja sem bjargar sér eins og hún best getur. Jón Gunnar Axelsson var stórfenglega perralegur sem Benóný og á eina skemmtilegustu setninguna, alla vega fyrir minn smekk, “Þetta er bara kinkí!”  

Svona verk gengur auðvitað út á misskilning, lygar og útúrsnúninga og það er vandmeðfarið efni. Auðvitað er þetta áhugaleikhús  með sínum kostum og göllum og vitandi það hvernig svoleiðis gengur fyrir sig, fólk í fullri vinnu tekur sér aukatíma til að leggja á sig umtalsvert erfiði, þá finnst mér hér vera stórmerkilegur hlutur á ferð. Sem endranær hefur Oddur Bjarni náð að draga fram kosti hvers og eins og þá þætti sem geta búið til og byggt upp einn karakter.  

Sviðsmyndin var frábærlega unnin og hélt afskaplega vel utan um þessa sýningu, sem er hröð og full af hamagangi og Iðavellir komu út sem yndislegt lítið leikhús.  Reyndar var nándin við leikarana og við sýninguna þannig að mér fannst eiginlega gott að vera ekki í Valaskjálf.  

Sýningarskráin er til fyrirmyndar, flott hönnun og allar upplýsingar sem skipta máli koma fram. Mér finnst rétt og gott að segja frá öllum sem koma að sýningunni. Það er nefnilega margt fleira sem býr til svona sýningu en leikararnir.  

Það var afskaplega lukkulegt fólk sem var klappað upp aftur og aftur á frumsýningu og það má líka vera það. Mér finnst að fólki beri allt að því siðferðileg skylda til þess að fara og horfa á Sex í sveit.  Kannski ekki af því að þetta er djúpviturt verk sem kennir manni allt um allífið, heldur vegna þess að þegar maður kemur út eftir sýninguna, þá er maður svolítið kátur innaní sér eftir léttgeggjaða skemmtun og vandað og vel unnið fjör.  Eins og Oddur Bjarni segir í leikskrá: “spáð er uppstyttulausum hlátrasköllum frá klukkan átta föstudags- og laugardagskvöld næstkomandi helgar – skyggni ágætt, gott sjó – hiti 25 stig.”

Sigurður Ingólfsson