Á Reyðarfirði, þann 20. apríl síðastliðinn frumsýndi Nemendafélag Grunnskóla Reyðarfjarðar í samvinnu við leikfélag Reyðarfjarðar leikritið Uppreisn Æru eftir Ármann Guðmundsson. Ég verð að viðurkenna að ég fór á sýninguna svolítið fordómafullur, eins og fólki er nú lagið að vera. Það var heimskulegt. Þetta er ein skemmtilegasta sýning sem ég hef séð lengi. Þarna stigu á svið grunnskólakrakkar og léku sér að texta sem gerir grín að sjónvarpsþáttum, hræsni og yfirborðsmennsku og hver einasti maður gerði sitt af innlifun og þeirri listrænu ástríðu sem á að einkenna góða sýningu. Það var auðsjáanlegt að fólkið á sviðinu vissi hvað það var að fara með. Leikstjórnin var alveg eins hún á að vera, það skorti engan sjálfstraust, hver rulla skipti máli. Þarna voru orðaleikir sem gerðu mann svolítið bjartsýnan um framtíð tungumálsins hjá þeim sem landið erfa. Þarna var metnaður og þor. Þarna var leikhús. Það væri eiginlega asnalegt að hrósa einstökum leikurum af því að allir voru svo góðir. Meira að segja pínulítil hlutverk voru trúverðugleg. En samt, aðalhlutverkin voru í afskaplega góðum höndum hjá Evu Laufeyju Hermannsdóttur og Magnúsi Karli Ásmundssyni. Og það sem var einna skemmtilegast að sjá, var hvernig þau, eins og aðrir, urðu meiri manneskjur eftir því sem leið á sýninguna. Hjördís Helga Þóroddsdóttir ljómaði sem söluvænlegi sálfræðingurinn og Nathaniel Paul Kelly var dásamlega neikvæður og persónufælinn. Páll Jóhannesson átti stórfenglega takta í hlutverki píanóleikarans (Yfirgefin? That’s my middle name) og Sigurður Óli Jónsson var alveg frábær á trommum. Svona mætti lengi telja, krakkarnir voru sér, skólanum sínum og leikhúsinu eins og það gerist merkilegast til sóma. Þetta er á margan hátt sérkennilegt verk. Þarna er nefnilega feykilega mörgu komið að án þess að troða, það kemst allt fyrir sem á að vera þarna. Ármann Guðmundsson hefur þarna gert nokkuð sem er bráðmerkilegt. Á sviðinu blandast kynslóðir, sorgir og gleði og yfirborðsmennskan er tekin fyrir af kímni og látlausri leikgleði. Þetta er leikhús!

Sigurður Ingólfsson