Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi nýlega leikritið Kontrabassann eftir Patrick Susskind. Njósnapenni Leiklistarvefsins var á staðnum. Kontrabassinn

Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýndi Kontrabassann eftir Patrick Susskind um síðustu helgi. Höfundurinn er helst þekktur fyrir skáldsögur sínar og er þar helsta að telja hina mögnuðu sögu Ilminn sem breytti áliti margra á hinum oft lítilsvirtu skynfærum, þeffærunum. Þó Kontrabassinn nái tæplega slíkum áhrifum er verkið þó ágætlega og á köflum mjög vel skrifaður einleikur. Eina persóna verksins er Kontrabassaleikarinn sem við fylgjumst með undirbúa sig fyrir tónleika. Áhorfendur fá innsýn í líf hans þar sem hann tjáir sig um það er nærri honum stendur, ekki síst hljóðfærið volduga sem blasir við áhorfendum í miðri stofunni meðan á sýningunni stendur. Við fræðumst m.a. um þetta merkilega hljóðfæri sem auk ýmissa annarra eiginleika nær tónum, öðrum hljóðfærum dýpri. Kontrabassaleikarinn kemur áhorfendum fyrir sjónir sem sjálfsöruggur og afslappaður í fyrstu en gegnum eintalið flettir hann smám saman ofan af sjálfum sér. Minnimáttarkenndin og óöryggið brýst smám saman framan fram ekki síst í samskiptum hljóðfæraleikarans við hljóðfæri sitt.

Kontrabassinn er vafalaust skrifaður með það í huga að leikarinn nái sambandi við við áhorfendur með því a beina tali sínu beint til þeirra. Gunnar Björn Guðmundsson leikstjóri fer þó aðra leið hér með því að kynna til sögunnar aukaleikara, gullfiskinn Depil sem sýndi reyndar stórgóðan leik sem mótleikari aðalleikarans. Þessi aðferð gæti hæglega gengið af sýningunni dauðri en hér gengur hún þó alveg upp og er þar fyrst og fremst að þakka frammistöðu Halldórs Magnússonar í hlutverki kontrabassaleikarans. Halldór hefur löngu sýnt hvers hann er megnugur á sviðinu og hér bregst hann ekki frekar en fyrri daginn. Hann er jafn sannfærandi sem hinn allt að því hrokafulli hljóðfæraleikari í byrjun verks og sem hin aumkunarverða, einmana persóna sem birtist smám saman eftir því sem líður á.

Allur umbúnaður sýningarinnar var ágætlega við hæfi og gaf áhorfendum góða tilfinningu fyrir því að vera flugur á vegg í blokkaríbúð úti í bæ. Ekki er þó hægt annað en að ráðleggja áhorfendum að fara léttklæddum á sýninguna því hitinn í þessu litla rými varð undirrituðum nokkur þolraun undir lokin. Skilst mér þó að reynt verði að bæta úr því.

Leikfélag Hafnarfjarðar hefur gengið í endurnýjun lífdaga undanfarin misseri. Húsnæðisskortur og erfiðar ytri aðstæður höfðu nánast gengið af félaginu dauðu þegar meðlimir fengu þá snilldarhugmynd að snúa göllunum í kosti með því að setja upp "litlar" leiksýningar sem byggja að miklu leyti á mikilli nánd við áhorfendur. Hin ansi magnaða sýning Salka miðill og Þið eruð hér sem sýnd var í vor gengu mjög langt í þeirri tilraun að gera áhorfendur að þátttakendum í sýningunni. Ég verð að játa að ég fagna því að LH skuli bregða hér út af "vananum". Fyrrnefndu sýningarnar tvær voru skemmtilegar tilraunir en að mínu viti er engu félagi hollt að festast í einni tegunds leikhúss. Það er hollt og gott að viðhafa fjölbreytni í verkefnavali og efnistökum. Það er einnig áhorfendum hollt og gott að sjá fjölbreytileg verk á sviði íslenskra leikhúsa og þar á meðal þeirra sómir sýning LH á Kontrabassanum sér vel.

Hörður Sigurðarson