Leikfélag Selfoss
Þrek og tár eftir Ólaf Hauk Símonarson
Leikstjóri: Lilja Nótt Þórarinsdóttir

Margir þekkja Þrek og tár eftir Ólaf Hauk, enda sló það eftirminnilega í gegn þegar það var frumsýnt fyrir ekkert alltof mörgum árum. Verkið er góð blanda af gríni og alvöru, textinn vel skrifaður og lögin fyrir löngu búin að stimpla sig inn í menningarsögu okkar Íslendinga.

Ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur í þessari uppsetningu, þar sem leikur, söngur og fjölmörg atriði á mismunandi stöðum, bæði á sviði og í hinum ímyndaða heimi, þurfa að mynda eina heild. Í leikskrá leiksýningarinnar var verkinu líkt við revíu. Væri nær lagi að kalla þetta söngleik, í það minnsta leikrit með heilum helling af lögum. En þessi “hálfgerða revía” (söngleikur) virðist vera einkar viðkvæm þegar kemur að því að tengja saman atriði. Skilin þar á milli og framvinda sögunar þurfa að renna snurðulaust saman í gegnum verkið til að það skili sér til áhorfenda. Í þetta skiptið vantaði örlítið upp á til að sú væri raunin.

Leikmynd verksins bar vott af hugmyndaflugi. Var fremri og aftari hluta sviðsins skipt sundur með stokki sem var einnig notaður til að leika á. Virkaði það stundum ágætlega í verkinu, en stokkurinn var óþarflega stór til að hægt væri að nota aftari hluta sviðsins almennilega til leiks. Einnig vantaði einhver kennileiti og  erfitt að finna hver átti að vera hvar. Notkun á leikmunum var hinsvegar hrein og góð, höfðu allir hlutir tilgang og trufluðu ekki. Búningar voru einnig mjög góðir,voru í anda þess tíma sem verkið á að gerast og tóku þátt í að skapa persónurnar.  Þeir áttu mestan þátt í að senda hug áhorfandans aftur til 1960.

Lýsingin var ágæt en að mestu einsleit. Hefði ef til vill verið ráð að nota hana meira til áherslubreytinga í verkinu. Stundum var hægt að sjá góðar og áhugaverðar myndir. Til dæmis var notkun á “strobe” ljósum vel úr hendi færð. Einnig voru skuggamyndir notaðar á áhrifaríkan hátt til að túlka dökku hliðarnar á Gunna, villta leðurjakkatöffaranum. En svo kom það fyrir að vinnuljósin voru bara sett á. Að minnsta kosti var það tilfinningin sem áhorfandinn fékk.

Leikur var góður. Skiluðu allir sínu frá sér með prýði. Voru leikarar misjafnlega reyndir, en verkið var þétt og boltanum haldið uppi í senum. Allt heyrðist og orkan var svo sannarlega til staðar, stundum jafnvel aðeins of óbeisluð. Vert er að minnast á leik Erlu Dan Jónsdóttur sem gömlu barnlausu konunnar, Vilhelmínu. Eintal hennar, þar sem hún grét til guðs vegna barnleysis, var bæði trúverðugt og einlægt. Heppnaðist persónusköpun Erlu einkar vel. Alltaf var gaman að sjá hana á sviðinu sem hina taugaveikluðu og aumingjalegu kellingu, sem bæði kitlaði hláturtaugarnar og náði samúð áhorfandans.

Ekki má gleyma söngnum. Skil ég vel af hverju þetta verk varð fyrir valinu ef horft er til hans. Upphafssöngur Kolbrúnar Lilju Guðnadóttur var frábær. Hún og Gunnhildur Þórðardóttir voru með bestu taktana þegar kom að því að þenja raddböndin á réttum stað í tónstiganum, að öllum öðrum ólöstuðum. Magnús Kjartan Eyjólfsson hefur farið vel með hópinn sem tónlistastjóri.

Leikstjórn var ágæt. Tókst vel til við að ná orkunni upp í mannskapnum og var tenging á milli persóna, þá í einstaka atriðum, oft vel útfærð. Tókst leikstjóra vel til að mjólka það besta úr hópnum. Hefur hann haft sitt að segja í öllu því jákvæða í flutningi verksins en það sem sárvantaði í sýninguna voru góðar tengingar á milli atriða. Þessa athöfn, – sem flytur áhorfandan frá einu yfir í annað, vantaði að mestum hluta. Og Þrek og tár. meira en mörg önnur leikverk, þarf á því að halda til að líma áhorfandanum við söguna. Þegar þetta lím vantar þá týnist samhengið, og þá sagan. Heildarmyndin hverfur. Skiptir engu máli hvernig það er gert, svo lengi sem það er til staðar og tónar við leikritið. Ef til vill er sú hugmynd að þetta svipi til revíu að þvælast fyrir. Verkið er ein heild og þarf meðvitað að vinna sýninguna út frá því. Revía, sem samansafn af lítið skyldum eða óskyldum söngvum, dönsum og stuttverkum, á ekki við þetta leikverk. Þrek og tár er er söngleikur, ekki revía. Allar persónur eru tengdar á misjafnan hátt, heyja baráttu innra með sér allt verkið. Annað hvort breytast þær eða ekki. Einnig er rauður þráður í gegnum allt verkið, þessi þrá persóna í öðruvísi líf og hvernig þau reyna að uppfylla hana. Áhorfandinn þarf að geta fylgst með því. Ein helsta ögrun sem sem leikstjóri stendur frammi fyrir er að sporna gegn þessarri revíuáferð. Tengja saman atriði og persónur. Finna stað fyrir allt í sögunni, hvort sem það eru söngvarnir eða heilu atriðin. Í þetta skiptið tekst það ekki sem skyldi.

Að lokum, til að gera langa sögu stutta, góður hópur og gott leikrit, sem hefði verið hægt að skila aðeins betur til áhorfenda.

Hörður S. Dan.