Lárus Vilhjálmsson fór um daginn á eina af lokaæfingum á Eldað með Elvis eftir Lee Hall og var bara nokkuð sáttur við stykkið. Þrátt fyrir nokkra hnökra á verkinu sjálfu sem ekki verða lagaðir svo auðveldlega og smá klikk hjá leikurum og tækniliði (þetta var æfing nota bene) lítur þetta út fyrir að verða ansi skemmtileg sýning. Hann gefur verkinu 2 og hálfa stjörnu.
Dómurinn í heild sinni er hér. Hlegið dátt á Eldað með Elvis
Steinn Elvis
** ½

Ég fór um daginn á eina af lokaæfingum á Eldað með Elvis eftir Lee Hall og var bara nokkuð sáttur við stykkið. Þrátt fyrir nokkra hnökra á verkinu sjálfu sem ekki verða lagaðir svo auðveldlega og smá klikk hjá leikurum og tækniliði (þetta var æfing nota bene) lítur þetta út fyrir að verða ansi skemmtileg sýning.

En fyrst um verkið sjálft. Mér skilst að höfundurinn Lee Hall sé nýjasta fróðárundur þeirra tjallana og skrifaði víst handritið að þeirri ólíkindalegu Billy Elliot sem fjallar um lágstéttastrák í Norður Englandi sem vill frekar vera í ballet en fótbolta!!! Þrátt fyrir afar ótrúlegan söguþráð þá var myndin bara ansi lúnkin og hjálpaði þar frábær leikur þeirra Jamie Bell, Julie Walters og Gary Lewis (þeim sem er í Niceland Friðriks Þórs). Eldað með Elvis er svört kómedía í anda Joe Ortons og er ansi fyndin á köflum. En ólíkt verkum Ortons og fleiri breskra svartkómedíuskálda finnst mér vanta einhverja dýpt í þetta verk Lee Hall og ég hafði það sterklega á tilfinningunni að það væri ekki að segja mér neitt. Mér fannst það með öðrum orðum frekar yfirborðskennt og á stundum var reynt að troða í manni einhverju sem var óskiljanlegt eins og t.a.m. að Elvis Presley hafi verið samkynhneigður og með einhverja messíasar komplexa. Það getur verið að einhverjir Elvis spesíalistar a la Hannes Hólmsteinn hafi fundið einhverjar heimildir um þetta en hvað í ósköpunum kemur þetta málinu við. Og þrátt fyrir afar skemmtilegar innkomur kóngsins í verkinu með söng og spjalli sem voru skiljanlegar í samhengi við líkamlega annmarka heimilsföðurins þá voru síðaprédikanirnar í seinni hluta verksins eiginlega út í hött. En þrátt fyrir þessa annmarka í plottinu og innra samhengi verksins þá eru persónur áhugaverðar og þrívíðar og verkið nær góðum sprettum og er sýningin mjög skemmtileg og má þar eflaust þakka leikstjóranum Magnúsi Geir Þórðarsyni og hans hóp.

Leikstjórn verksins er fumlaus og öguð og Magnús leysir annmarka sviðsins í Loftkastalanum á snjallan hátt í mörgum senum. T.a.m. er flott sviðsetningin á ástarleik dótturinnar og myllubakarans og eins er baklýsing nýtt á skemmtilegan hátt. Ég set að vísu spurningarmerki við ferðir Elvis út í sal en það virkar kannski vel þegar það er fullur salur af æstum áhorfendum. Magnús hefur sýnt áður að hann er flínkur leikstjóri og bregst ekki bogalistin hér.

Lýsing Björns Bergsteins og leikmynd Þórarins Blöndal þjóna verkinu vel og tekst að breyta fábreyttri íbúð í glysmikið Las Vegas svið á svipstundu. Ég hefði þó viljað sjá meira gert úr eldhúsinu enda snýst þungamiðja verksins um eilífa eldamennsku aðalpersónunnar.

Búningar verksins voru yfirleitt nokkuð við hæfi og stóðu gallar Elvis þar upp úr. Mér þóttu þó föt dótturinnar annkannaleg og ég skil ekki hversvegna í ósköpunum var verið að reyna að fita hana með búningi. Það er í lagi í Bubba kóng en fáránlegt í raunveruleikakómedíu.

Leikhópurinn í Eldað með Elvis er massívur og gerir fína hluti. Álfrún Örnólfsdóttir sýnir stjörnuleik í hlutverki dótturinnar og þrátt fyrir þá furðulegu ákvörðun að setja hana í einhverja óléttugalla til að gera hana feita þá tókst henni með sterkum leik og mikilli útgeislun að skapa persónu sem er í senn harmræn og kómedísk. Ég bíð spenntur eftir að sjá hana í Dís. Halldóra Björnsdóttir sem er ein af okkar fínustu leikonum gerir móðurinni afar fín skil og sýnir vel örvæntingu konunnar sem finnur aldurinn nálgast og finnst hún vera að missa af lestinni með lamaðan eiginmann og feita dóttur í eftirdragi. Friðrik Friðriks sýnir að hann hefur engu gleymt eftir stutta fjarvist frá leiksviðinu og sýnir snilldartakta og skapar fyndnustu atriði sýningarinnar með frábærum og nákvæmum tímsetningum. Og síðast en ekki síst er það Steinn Ármann Magnússon sem hefur sýnt það og sannað á síðustu árum að hann er einn af okkar bestu gamanleikurum og t.a.m. brilljant í Kvets. Það runnu að vísu á mig tvær stjörnur þegar hann birtist slefandi í hjólastól í byrjun verksins og ég fór að velta fyrir mér hvað Steinn gæti gert í þessu ástandi. En þær áhyggjur runnu út í sandinn þegar Kóngurinn sjálfur birtist ljóslifandi og það var eiginlega dálítið óhugnanlegt hvað Steinn náði kallinum vel bæði í söng og töktum. Ég hef aldrei komið til Las Vegas en það var á stundum eins og maður væri á Caesars Palace hótelinu með Kónginum.

Ég vil að lokum hvetja alla til að skella sér á Eldað með Elvis. Þrátt fyrir annmarka verksins sjálfs er sýningin afbragðskemmtileg og hefur alla burði til að vera tilvalin kvöldskemmtun fyrir saumaklúbba og starfsmannahópa. Eða hvað er betra en að fara í leikhús í góðra vina hópi og hlægja frá sér allt vit.

Öfugt við suma atvinnugagnrýnendur hef ég afar gaman af stjörnugjöf og af því að ég er amatör þá ætla ég að gefa stjörnur og er stjörnugjöfin eftirfarandi.

Engin stjarna – hryllingur – haltu þig fjarri og varaðu aðra við
Hálf stjarna – lélegt – haltu þig heima og horfðu frekar á Nýjasta tækni og vísindi
Ein stjarna – dapurt – allt í lagi að kíkja en hafðu með þér Andrésblað
Ein og hálf stjarna – slakt – farðu ef þú ferð á allar leiksýningar (þær slöppu líka)
Tvær stjörnur – þokkalegt – farðu en fáðu þér drykk í hléinu
Tvær og hálf stjarna – ágæt – farðu endilega, góð skemmtun
Þrjár stjörnur – gott – farðu, gæti verið besta sýning ársins
Þrjár og hálf – frábær – verður að fara á þessa og hvetja aðra líka
Fjórar stjörnur – snilld – frestaðu öllu öðru

Lárus Vilhjálmsson