Leikfélag Mosfellssveitar: Skilaboðaskjóðan eftir Þorvald Þorsteinsson
Leikstjóri: Agnes Wild

Leikhópurinn Miðnætti er öflugt teymi þriggja listamanna sem allir eru þrælmenntaðir og reyndir en upprunnir og uppaldir í öflugu leikfélagi heimabæjar síns. Nú leggja þær Agnes, Eva og Sigrún félaginu sínu lið í þriðja sinn; með vel heppnaða samstarfsverkefninu Skilaboðaskjóðunni. Fyrri verk voru hin vinsæla og góða sýning Ronja Ræningjadóttir, sem var valin í Þjóðleikhúsið sem besta áhugasýningin, og spunaverkið Mæður Íslands; sýning sem var unnin af hugrekki með einlægni í farteskinu.
Skilaboðaskjóðan hefur verið sett upp víða um land síðan hún var frumsýnd í Þjóðleikhúsinu fyrir margt löngu. Enda er uppskriftin skotheld: Spennandi söguþráður, góðar og vondar persónur, þekktar persónur úr þekktum ævintýrum innan um og ekki síst skemmtilegir og hressir söngvar. Það er auðvitað saga Putta litla sem er rauði þráðurinn; Putti litli stelst út í ævintýraskóginn um miðja nótt og fær makleg málagjöld því honum er rænt! Boðskapurinn skilaði sér vel til stúlkunnar sem fór með mér í leikhúsið þann 11. febrúar síðastliðinn en hún er að verða fjögurra ára gömul. Það var virkilega óhugnanlegt og sorglegt þegar stórfenglegt nátttröllið tók Putta litla og við vorkenndum Möddumömmu og vinum hans mikið. En vorum líka svo ánægðar með að geta hjálpað til við að frelsa Putta litla með því að kalla orðalykilinn saman. Þannig skilaði boðskapur höfundar um samvinnu og góðvild sér einna best. Okkur fannst dvergarnir hver öðrum skrýtnari og skemmtilegri; nornin hræðileg og úlfurinn bestur í fjarlægð en mikill hápunktur að geta heilsað upp á fyrirmyndirnar Mjallhvíti og Rauðhettu að lokinni sýningunni.
Umgjörðin öll var mjög flott; búningar og leikmynd ævintýralegt og frumlegt í senn og tónlistarflutningur til fyrirmyndar. Tónlistin er alls ekki einföld en var afar áheyrilega flutt af hljómsveitinni og söngvarar góðir. Sérstaklega fannst mér gaman að heyra Flemming spila á harmóníkuna en hann er einn okkar albesti harmóníkuleikari af yngri kynslóðinni. Ég verð líka að hrósa leikskránni; hún er ítarleg, lífleg í stíl við leikmynd og búninga og það er gaman fyrir börnin að fara heim með svona skýrar og góðar ljósmyndir af persónunum.
Leikararnir voru margir og gerðu vel en skemmtilegast þótti mér að sjá hinn breiða aldurshóp þar sem vart mátti á milli sjá hvort léku betur hinn elsti eða yngsti. Auðvitað var Dóra Wild örugg kjölfesta í hlutverki Stóra dvergs en hinn átta ára gamli Haukur Helgi Högnason var sérlega kotroskinn og skýrmæltur sem Putti litli. Einnig skar Elísa Sif Hermannsdóttir sig úr með kómískum leik sínum og skýrum framburði í hlutverki Litla dvergs. Leikfélag Mosfellssveitar hefur verið til fyrirmyndar árum saman varðandi barna- og unglingastarf og sést árangur þess svart á hvítu í sýningunni þar sem stór hluti leikararanna hefur sótt námskeiðin á yngri árum. Að öllu sögðu: Skilaboðaskjóðan er skemmtileg og góð sýning og sannkallaður sigur fyrir listræna þríeykið Agnesi, Evu og Sigrúnu í Miðnætti.

Hrund Ólafsdóttir