Leikfélag Selfoss sýnir Glæpi og góðverk – leikgerð Sigrúnar Valbergsdóttur byggt á leikriti Anton Delmer
Leikstjóri: Sigrún Valbergsdóttir

Þegar gengið er inn í salinn í Litla leikhúsinu við Sigtún blasir við á sviðinu fremur gamaldags og hlýleg stofa. Einhverjar myndir standa upp við vegg og bíða þess að verða hengdar upp. Þegar sýningin, Glæpir og góðverk, hefst kemur í ljós að við erum stödd á heimili þriggja systra. Systurnar eru tiltölulega nýfluttar, en þær fengu húsið í arf frá bróður sínum og eru að koma sér fyrir í upphafi verksins.

Systurnar þrjár, Alda, Bára og Unnur, eru engar venjulegar systur. Þær eru stöðugt með guðsorð á vörum og gera allt sem þær geta fyrir samborgara sína. Stuttu eftir að þær flytja verður smá atvik til þess að það hleypur á snærið hjá þeim og þær geta í framhaldi af því gefið til góðgerðarmála sem aldrei fyrr. Ekki er rétt að gefa meira upp um efni verksins Glæpi og góðverk en það er byggt á leikritinu Don’t utter a note eftir Anton Delmer og þýtt og staðfært af leikstjóranum Sigrúnu Valbergsdóttur. Leikritið er farsakennt og á stundum dálítið absúrd. Því hver getur verið svona góður eins og þessar systur og hvað eru svosem það að vera góður í raun og veru?

Alda, leikin af Sigríði Hafsteinsdóttur, er sú sem ræður hvað mestu í systrahópnum og er óhætt að segja að afneitun sé hennar sterkasta karaktereinkenni. Hjá henni gildir það að tilgangurinn helgi meðalið. Bára, leikin af Jónheiði Ísleifsdóttur, fylgir henni fast á eftir í skoðunum og þriðja systirin, Unnur, leikin af Guðnýju Láru Gunnarsdóttur, gerir svo bara það sem henni er sagt.
Leikkonurnar þrjár í burðarhlutverkum verksins standa sig einkar vel, framsögn þeirra er góð og þær eru mjög samstillar í leiknum. Fleiri persónur blandast inní verkið, presturinn á staðnum, leikin af Hildu Pálmadóttur. Hilda gerir prestinum mjög góð skil og er sannfærandi í hlutverkinu. Sömuleiðis er Breyskur, leikinn af Stefáni Erni Viðarssyni eftirminnilegur karakter. Njáll og Bergþóra koma svo einnig við sögu, þau eru leikin af Gústav Þór Stolzenwald og Gunnhildi Þórðardóttur. F. Elli Hafliðason á svo skemmtilega innkomu á sýninguna sem Árni afturganga. Að lokum ber að nefna Alfreð Loga Birgisson sem fer með hlutverk hins einfalda lögregluþjóns Ólafs Íshólm.

Lítill sönghópur, sem minnir á söngvara í Hjálpræðishernum, þjónar hér hlutverki sögumanns. Hópurinn er skipaður ungum leikurum þeim Aldísi Róbertsdóttur, Birgittu Brynjarsdóttur og Kristóferi Númasyni. Hópurinn stendur sig mjög vel og er einkar samstillur í söng sínum. Sönghópurinn á líka eina stutta innkomu inn í verkið sjálft og þar ná krakkarnir að sýna að þau búa yfir ágætum leikhæfileikum.

Ljósanotkun í sýningunni er hófstillt enda gerist verkið að því er virðist mest að degi til í einni stofu. Búningarnir og leikmyndin eru mjög gamaldags og verður að segjast að það er erfitt að tímasetja verkið. Miðað við búningana gæti leikritið gerst í kringum 1970 en inní leikinn eru tvinnaðar fréttir sem gerast í samtímanum. Ég held að það hefði mátt tímasetja verkið aðeins betur. Kannski ekki endilega að láta það gerast í dag en í það minnst eitthvað nær okkur í tíma.

Eitt af einkennum góðs farsaleiks er hratt tempó. Á frumsýningunni var tempóið nokkuð hægt. Tíminn fyrir hlé leið þó mjög hratt en eftir hlé kárnar heldur betur gamanið og þá hefðu skiptingar þurft að vera hraðari.
Þrátt fyrir þessa örlitlu annmarka er sýningin skemmtileg. Eins og áður hefur verið getið er framsögn leikaranna góð og greinilegt að alúð hefur verið lögð í uppsetninguna og alla umgjörð verksins. Óhætt er að mæla með sýningunni og er hún enn ein rós í hnappagati Leikfélags Selfoss, sem fagnar 60 ára afmæli á þessu leikári. Að lokum langar mig að hrósa leikskránni sem er einkar vel úr garði gerð að þessu sinni.

Elín Gunnlaugsdóttir