Þorgeir Tryggvason fjallar um sýningu Leikfélags Kópavogs á Skugga-Sveini:

"Það er fagnaðarefni af stærra taginu að ganga inn í nýtt leikhús. Sérstaklega ef þar er ekki tjaldað til einnar nætur. Hið nýja húsnæði Leikfélags Kópavogs lofar svo sannarlega góðu og fyllsta ástæða til að óska félagsmönnum og bæjarbúum til hamingju með þetta. Leikfélag Kópavogs hefur um árabil verið meðal framsæknustu og metnaðarfyllstu leikfélaga landsins og allar líkur á að þessi varanlega vinnuaðstaða verði skotpallur fyrir enn hærra flug."

ss_2_250x183.jpgÞað er fagnaðarefni af stærra taginu að ganga inn í nýtt leikhús. Sérstaklega ef þar er ekki tjaldað til einnar nætur. Hið nýja húsnæði Leikfélags Kópavogs lofar svo sannarlega góðu og fyllsta ástæða til að óska félagsmönnum og bæjarbúum til hamingju með þetta. Leikfélag Kópavogs hefur um árabil verið meðal framsæknustu og metnaðarfyllstu leikfélaga landsins og allar líkur á að þessi varanlega vinnuaðstaða verði skotpallur fyrir enn hærra flug. Hljómburður var reyndar mörgum leikurunum frekar mótdrægur, en gera má ráð fyrir að það sé barnasjúkdómur sem handverksmenn félagsins leysa fyrr en síðar.

Valið á verkefni til að  vígja Leikhúsið verður að teljast sérlega snjallt. Ekkert leikrit er eins nátengt hjartarótum íslenskrar leiklistar og áhugaleikhússins sérstaklega og menntaskólabrek Matthíasar Jochumssonar, Skugga-Sveinn. Og fáum leikstjórum er frekar treystandi til að finna á því ferskan flöt án þess að tapa sér í afbyggingarstælum en Ágústu Skúladóttur.

Enda er útkoman þegar á heildina er litið róttæk en snjöll túlkun á verkinu.

Sýningin hverfist um eina grunnhugmynd – að steypa saman persónum Skugga og Haraldar. Eitthvað sem sló mig sem glapræði þegar ég heyrði af ráðagerðinni. Hvernig átti að ganga upp að búa ból í sama leikara hinu aldna ofurmenni sem allir óttast og unga og ástfangna drengnum sem varðveitt hafði siðvitið í gegnum harðneskjulegt uppeldi meðal útilegumanna og frelsast fyrir mátt ástarinnar?

Það gengur bara prýðilega upp. Hinn samsetti Haraldur Sveinn verður nánast eins og maður sem alist hefur upp meðal villidýra, einhverskonar Tarzan eða Mowgli. Uppeldið hefur gert hann að einhverskonar ofur-útlaga með skilningarvit og bardagahæfni efld af lífsbaráttunni, en undir niðri bíða mildari eðlisávísanir og tilfinningar eftir að einhver nái til þeirra.

Þessu skilaði Baldur Ragnarsson aldeilis ágætlega í sýningunni, vel studdur af Grímu Kristjánsdóttur í hlutverki Ástu. Það er vandasamt að leika svona samsettar persónur. Það er mikil hætta á að þær verði nokkuð eintóna, þar sem þeir hlutar hvorrar persónu sem ekki gengur upp í hinni detta út. Þessu sér nokkuð stað í sýningunni, en Baldur vinnur á móti með sviðssjarma og krafti.

Af öðrum leikurum verður ekki hjá því komist að nefna Bjarna "töframann" Baldvinsson sem setti kostulegan svip á bæði Grasaguddu og bændurna Geir og Grana. Merkilega lítið varð honum samt úr skopmöguleikum Ketils Skræks, hvað sem veldur. Þá er ánægjulegt að burðarásar úr síðustu uppsveiflu leikfélagsins, þeir Bjarni Guðmarsson  og Hörður Sigurðarson stíga aftur á svið og sýna kunnuglega takta. Reyndar má hrósa leikhópnum í heild fyrir sitt samstillta átak.

Tvennt er það sem helst dró sýninguna niður í minni upplifun. Í upphafi þóttu mér trúðsk uppátæki af því tagi sem geta talist vörumerki leikstjórans standa frekar í vegi fyrir innlifun og skemmtigildi en hitt. Þetta rjátlaðist fljótlega af og traust á mætti sögunnar tók við.

Hitt er að einfaldleikinn í umgjörðinni og ákveðið skeytingarleysi um staðsetningar standi skilningi fyrir þrifum. Má vera að þeir sem ekki þekkja verkið sæmilega lendi í vandræðum með að fylgja sögunni eftir úr sveit á fjöll, fram og til baka. Að öðru leyti er umgjörð og útlit með ágætum, sérstaklega samspil leikmyndar og lýsingar til stemmingsbreytingar.

Skugga-Sveinn í Kópavogi er djörf nálgun við hefðarhelgaðan efnivið. Útkoman er sterk sýning sem ber metnaði aðstandenda sinna augljós merki.

Eins og krúttið sagði: Ágætis byrjun.

Þorgeir Tryggvason