Nemendafélag Verzlunarskóla Íslands frumsýndi á dögunum söngleikinn Made in USA eftir Jón Gnarr í leikstjórn Jóhanns G. Jóhannssonar. Þetta er heilmikið „show“ að hætti Verzló og hvergi til sparað í umgjörð. Söngleikjaunnandinn Lárus Vilhjálmsson brá sér á sýninguna og hér má lesa hvernig honum þótti til takast hjá Verzlingum. Kraftmikil og flott sýning hjá Verzló

Ég skrapp á sýningu Verzló á dögunum á „Made in USA“ eftir Jón Gnarr í leikstjórn Jóhanns G. Jóhannssonar og skemmti mér vel. Þótt að handritið um íslenska skiptinemann sem kynnist krökkum í amerískum listaskóla (aka Fame) sé frekar rýrt í roðinu og bjóði ekki upp á mikla persónusköpun, þá þjónar það þeim tilgangi að tengja saman flott sjónarspil söng og dansatriða. Jón Gnarr fer þá leið að gera létt grín að hinni dæmigerðu bandarísku (og íslensku) dægurmenningu og stundum vottar fyrir smá broddi, eins og til að mynda í kostulegri þjóðremburæðu í lokin. En í söngleik þar sem aðalatriðið er að skemmta manni er náttúrulega fáránlegt að biðja um einhvern Ibsen eða Tennesse Williams svo að ég er bara ansi sáttur við handritið eins og það er.
Leikstjórnin á verkinu er ágæt, sérstaklega í hópatriðum og skiptingum. Stundum fannst mér þó sum leikatriðin heldur uppstillt og með óeðlilegri mynd. Jóhann hefur þó mjög góða stjórn á þessum stóra hóp og nær út fínum leik hjá flestum þeirra. Tónlist, dans og útlit er í góðum höndum hjá toppfólkinu í bransanum. Jóni Ólafs, tónlistarstjóra, sem er okkar aðal snillingur í söngleikjum og klikkar ekki, Ástrósu Gunnarsdóttur, danshöfundi sem er í Broadway klassa og Sigurði Kaiser sem er alltaf flottur og útsjónarsamur í leikmynd og lýsingu.

Þegar ég horfði á sýninguna tautaði ég margoft við sjálfan mig. „Hvernig er þetta hægt?“ Það er ótrúlegt að sjá þessa krakka, sem eru í strembnu námi við Verzló (er það ekki annars?), setja á svið söngleik sem er miklu skemmtilegri en t.a.m. Sungið í Rigningunni sem ég sá um árið, og gera það jafnvel betur en proffarnir. Maður verður stundum bara hvumsa og veltir fyrir sér þessari skilgreiningu á proffum og amatörum. Það var allavega lítill munur á þessari sýningu ef þá nokkur.

Krakkarnir í sýningunni sýna topp takta bæði í söng, dansi og leik. Það má minnast á aðalpersónurnar sem eru vel leikin og sungin af Þorvaldi Davíð Kristjánssyni og Hönnu Borg Jónsdóttur. Sigrún Ýr Magnúsdóttir sýndi okkur verulega hættulega „femme fatale“ og í áfengisglyðrusöngnúmerinu held ég að það hafi næstum liðið yfir karlpeninginn í salnum.
Leifur Eiríksson var sannfærandi hvítur rappari sem vildi verða svartur „brother“ og Gunnar Þór Pálsson var kostulegur sem SS kennarinn og Rokkar Amadeus var einn af hápunktum sýningarinnar. Það má líka nefna ansi spaugilegar týpur sem birtust á sviðinu eins og hinn þýska lúser Rúnars Inga Einarssonar, hina erkitýpisku gengilbeinu Bjargar Magnúsdóttur og hinn elvíska Kristján Sturlu Kristjánsson. Jón Ragnar Jónsson var einnig spaugilegur country boy og söng feikna vel. Dansarar í sýningunni voru fantagóðir og má nefna klappstýrurnar og þá Hafstein Má og Ásgeir Helga sem dæmi um það.

Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer á sýningu hjá Nemendamóti Verslunarskóla Íslands og það verður að segja ég var afskaplega glaður yfir þeim gífurlega metnaði sem er lagður í sýninguna. Svona á að gera það. Semsagt topp sýning, fyndin, flott og kraftmikil. Ég verð þarna vonandi að ári.

Lárus Vilhjálmsson