Freyvangsleikhúsið frumsýndi sl. helgi gamanleikritið Fólkið í blokkinni eftir Ólaf Hauk Símonarson en verkið á uppruna sinn sem smásagnasafn sem fyrst kom út árið 2001. Síðan þá hafa einnig verið gerðir sjónvarpsþættir byggðir á sögu fólksins í blokkinni og sýndir við talsverðar vinsældir árið 2013.
Leikstjóri verksins er Kolbrún Lilja Guðnadóttir og hefur hún greinilega skilað hér góðri vinnu.
Leikritið fjallar um hversdagslíf íbúa í blokk, þar sem skemmtilegar og litríkar persónur á öllum aldri lifa sínu lífi. Í raun er söguþráðurinn tiltölulegar einfaldur og laus við tilgerð og stórvirki. En sagan er falleg og persónur hjartnæmar.
Í blokkinni æfir hljómsveit sem byggir á fornri frægð og hyggur á uppsetningu á söngleik, unglingaástir koma við sögu, fordómar gagnvart útlendingum, þunglyndi, spádómsgáfa, áfengissýki, yfirnáttúrulegir kraftar og skarpskyggn strákur sem setur nýtt sjónarhorn á ýmislegt. Tónlist og söngur spila einnig stórt hlutverk í söguþræðinum. Texti og persónusköpun Ólafs Hauks Símonarsonar er bara þvílík dásemd og gerir verkið að þeim gimsteini sem það er.
Freyvangsleikhúsið gerir hér margt mjög vel, allir leikararnir skila sínum hlutverkum með miklum sóma og má þar helsta nefna Jón Friðrik Benónýsson sem leikur fúllynda húsvörðinn Róbert, Badda Ingimarsson sem leikur strákinn Óla og Kareni Ósk Kristjánsdóttur sem leikur unglinginn Söru systur hans, en þau skila trúverðugum og einlægum persónum mjög vel. Fínn stígandi er í verkinu og eftir hlé var eins og færðist aukinn kraftur bæði í leikara og verkið sjálft.
Tónlistin skipar stóran sess í sýningunni og ferst hljómsveitinni og söngvurum það vel úr hendi.
Leikmyndin er lífleg og litsterk. Hún studdi vel við verkið, en talsverð áskorun er að ná að túlka tilfinninguna fyrir blokk og efri hæð, en það er lipurlega útfært í sýningunni. Búningar eru jafnframt litríkir og falla vel að persónum verksins, lýsing var oftast mjög fín en stundum kom þó fyrir að vantaði aðeins meiri lýsingu á sviðinu. Einnig er vert að minnast á mjög flotta hönnun á auglýsingum og myndefni í sýningaskrá, sem er vel gert og vekur athygli.
Sýningin er mjög skemmtileg og auðvelt að hlæja hjartanlega og hrífast með spaugilegum hversdags atburðum fólksins í blokkinni. Hins vegar eru í sýningunni á nokkrum stöðum ýmislegt sem gefur í skyn að lífið er jú ekki alltaf dans á rósum. Þessu öllu er vel og einlæglega skilað af fínum leikarahópi Freyvangsleikhússins.

Mæli með því að fólk eyði huggulegri kvöldstund með fólkinu í blokkinni og hlæji hjartanlega að hinu smáa og hversdagslega, sem Freyvangsleikhúsið fer hér fallegum höndum um.
Að lokum er vert að minna á það stóra menningarlega hlutverk sem áhugamannaleikhús á borð við Freyvangsleikhúsið gegnir, en það er með elstu áhugamannaleikhúsum landsins. Það kostar listrænan áhuga, elju og vinnusemi rúmlega 50 einstaklinga til þess að sýning sem þessi verði að veruleika og íbúar njóta afrakstursins. Það er ekki sjálfgefið.

Til hamingju með sýninguna, vel gert og áfram Freyvangsleikhúsið!

Elsa María Guðmundsdóttir
Höfundur er með M.A í menningarstjórnun.