NEATA Youth tók þátt í listahátíðinni Sceoskop í Danmörku dagana 10.-14. maí. Ísland átti þar tvo fulltrúa, þau Söru Rós Guðmundsdóttur og Svein Brimar Jónsson. Sara Rós sendi okkur eftirfarandi skýrslu um hátíðina og vinnubúðir NEATA Youth:

NEATA Youth workshop í Odense í Danmörku 2023

NEATA Youth heldur áfram að blómstra og fengum við tækifæri á að senda tvo fulltrúa á leiklistarbúðir í Odense dagana 10.-14. maí síðastliðinn. Fyrstu tvo dagana tókum við þátt 

í leiklistarnámskeiði með yfirheitinu „vinátta“ sem Jacob Teglegaard leiddi sem endaði svo á því að við sýndum afraksturinn á leiklistarhátíðinni „Scenoskop“. Leikstjóranum tókst afskaplega vel til að mynda gott andrúmsloft innan hópsins og það varð til ótrúlegt traust alveg á fyrstu mínútunni. 

Við fengum svo kynningu á því hvað NEATA stendur fyrir og hvað NEATA Youth er. Í framhaldinu af því fengum við tíma til þess að velta því fyrir okkur hvað við gætum gert til að bæta starfið, bæta vitneskju ungmenna í hverju landi um NEATA Youth, efla ungt fólk innan áhugaleikfélaganna og halda þessum tengslum áfram. Möguleikarnir eru endalausir og eru engin takmörk fyrir því sem við getum gert saman. Þó að tíminn hafi verið stuttur sem við fengum saman þá stoppar það okkur ekki neitt og munum við halda áfram að hafa fundi yfir zoom.

Það er eiginlega ekki hægt að lýsa þessu beint með orðum og sérstaklega ekki fyrir þeim sem ekki hafa upplifað þetta. En þarna eru saman komin ungmenni frá Litháen, Lettlandi, Eistlandi, Svíþjóð, Danmörku, Noregi, Íslandi, Færeyjum og Finnlandi sem þekkjast ekkert fyrir, hafa jafnvel aldrei ferðast til annars lands og vita oftast ekki hvað NEATA Youth er eða hvað þau eru að fara út í. Það þarf ofsalega mikið traust til þess að svona vinnubúðir gangi upp. Sem var einnig stór þáttur í námskeiðinu. Líkamlega vinnan mátti einnig tengja við traustið. Við hölluðum okkur hvert að öðru, gripum hvert annað, lyftum hvert öðru upp, slógum hvert annað og héldum augnsambandi. Þetta tengdum við svo allt vináttunni og varð þetta að sameiginlega tungumálinu okkar. Eftir að við sýndum afraksturinn á hátíðinni þá buðum við áhorfendum að taka þátt og prófa þetta tungumál með okkur. Í lokinn voru umræður um verkið og voru ummælin mjög jákvæð og fannst áhorfendum aðdáunarvert að sjá hversu áreiðanleg við vorum eftir þennan stutta tíma sem við hefðum þekkst. Þá var líka ein sem sagði að við hefðum gefið henni aftur trúna á mannkynið. Það er einmitt svo magnað við að taka þátt í svona verkefnum, við þurfum ekki að tala sama tungumálið eða vera af sama kyni eða trúa á sama guð. Við brennum fyrir því sama, sem er leiklistin í þessu tilviki, við berum virðingu fyrir hvert öðru og erum með opinn huga, þá getur sko allt gerst. 

Þegar það er gaman og maður nær að skapa eitthvað fallegt er tíminn alltaf of fljótur að líða. En þetta er ekki endirinn, við treystum hvert öðru, sýndum kærleika, sköpuðum margar ógleymanlegar minningar og kveiktum marga litla leiklistarneista í huga hvers annars sem mun örugglega leiða eitthvað fallegt af sér í framtíðinni. 

Sara Rós Guðmundsdóttir