Smán eftir Sigríði Láru Sigurjónsdóttur í leikstjórn Sindra Swans í uppsetningu Freyvangsleikhússins
Það þarf sannarlega hugrekki að taka frumsamið verk og setja á svið hjá áhugaleikhúsi og hvað þá í miðjum faraldri. Freyvangsleikshúsið hélt handritasamkeppni fyrir um 2 árum og þetta verk var hlutskarpast á endanum.
Ég vissi ekkert um hvað verkið var er ég settist inn í notalegan salinn í Freyvangi síðastliðið föstudagskvöld. Ég hef oft komið þarna en það kom skemmtilega á óvart sviðsuppsetningin, en hún er mjög vel útfærð. Nýting á hverju skoti fullkomin, stór bar og glerveggur þar sem Bautinn blasti við í baksýn. Látlaust sjónvarpið upp á vegg skipaði stóran sess í verkinu, en á skjánum rúlluðu myndir og myndbönd er speglaði hugrenningar sögukonunnar á skemmtilegan, myndrænan hátt, þess á milli rúlluðu gömul myndbönd með íslenskum tónlistarmönnum sem undirstrikuðu tíðarandann í verkinu.
Þetta verk gerist á 3 dögum, þar sem fastagestir barsins mæta með raunir sínar og væntingar, en barþjónninn lifir og hrærist í þeirra heimi. Þegar ung kona með dularfullt fas fer að venja komur sínar á barinn hýrnar yfir barþjóninum sem stígur í vænginn af miklum móð.
Barþjóninn er leikinn af Hjálmari Arinbjarnarsyni, og Jóhanna Sigurbjörg Ingólfsdóttir leikur hina dulafullu konu sem virðist hafa komið þarna í helgarferð, en virðist þó vera í uppgjöri innra með sér. Jóhanna nær að túlka hina margslungnu konu vel, og vissi maður aldrei hverju var von á er hún tók sínar einræður.
Ungir vinir sem eru saman í námi eru Hanna og Albert. Hanna virðist haldin þráhyggju við menn sem fara ílla með hana á meðan Albert elskar hana í laumi og reynir að vera til staðar sem vinur og námsfélagi. Inga María Ellertsdóttir túlkar Hönnu, sem skemmtilega barnalega en þó sorglega stúlku, sem telur líf sitt ekki vera gott nema hún sé í sambandi, og gefur allt í til að halda í hinn miður skemmtilega Gadda, leikinn af Daða Frey Þorgeirssyni, e Gaddi er leiðindagaur. Eyþór Daði Eyþórsson leikur Albert, og gerir það vel.
Á þessum bar ná dularfulla konan og Hanna tengingu í gegnum sameiginlega óbeit og þráhyggju gagnvart karlmönnum þó ólíkar séu. Ída, sem er leikin af Kareni Ósk Kristjánsdóttur, kemur á barinn og vefur öllum karlpeningnum um fingur sér svo það hitnar verulega í kolunum. Aðrir gestir (leikarar) koma og fara á barnum þó fasti kjarninn sé í fyrirrúmi.
Verkið er ádeila á skemmtistaði upp úr 2000, þar sem fastagestir virtust fastir í sama farinu þrátt fyrir langanir að gera annað.
Þetta verk er skemmtilega sviðsett og sérstaklega má hrósa leikstjóra fyrir hljóð- og myndnotkun í sýningunni.
Mæli ég með að fólk geri sér ferð í Eyjafjörðinn og sjái Smán hjá Freyvangsleikhúsinu.
Jokka G Birnudóttir