Leikfélag Selfoss
Bót og betrun eftir Michael Cooney
Leikstjóri: Jón St. Kristjánsson. Þýðandi: Hörður Sigurðarson

Bót og betrun er frábærlega skemmtilegur farsi; vel skrifaður og mjög vel þýddur. Undirrituð fór á frumsýningu, byrjaði fljótlega að gráta úr hlátri og hélt því áfram nokkurn veginn til loka. Það er svo gaman að sjá vel smurðan farsa þar sem allt gengur upp og þrælvant fólk í flestum hlutverkum, að ekki sé talað um þjálfaðan leikstjórann sem stýrir breskum farsa hjá Selfyssingum í þriðja sinn nú. Hljóðmyndin var vel gerð, lýsing einnig og heildarmyndin snurðulaus.

 

Farsar eru með vandasömustu uppfærslunum, það verður að halda hraða og takti en allt þarf að vera mjög skýrt vegna tímasetninga, endalausra upplýsinga og orðaleikja. Í þessum gamanleik eru margar dyr til að fara inn og út um og til að berja á eða láta undarleg hljóð heyrast frá og man ég varla eftir farsa þar sem þær eru notaðar svo skemmtilega. Fyrir utan að vera hefðbundinn og vel skrifaður hurðafarsi er leikritið stútfullt af öllu þessu hefðbundna sem einkennir breska farsa: Aðalpersónu sem komin er í ógöngur í meira lagi; einföldum sálum, tækisfærissinnuðum og/eða trúgjörnum; heimskum og stífum fulltrúum hins opinbera; bröndurum og orðaleikjum; samskiptum kynjanna, neðanmittishúmor og hómófóbíu. Aðalpersónan er karlmaður nokkur sem hefur svindlað bætur út úr kerfinu í tvö ár en kemst í veruleg vandræði strax í byrjun verks. Leigjandi hans er ekki síður mikilvæg persóna en hann er auðtrúa sál sem auðvelt er að stjórna til og frá. Átta aðrar persónur koma við sögu, flestar auðtrúa og aulalegar og flækjast gegn vilja sínum inn í tryllingslega atburðarásina.

Í helstu hlutverkum voru vanir leikarar. Guðmundur Karl Sigurdórsson lék aðalpersónuna Eric Swan sem lenti einhvern veginn óvart í því að nota sér kerfið en er á hlaupum allan tímann til að passa að allt komist ekki upp. Hann var mjög fyndinn og góður í tímasetningum. Svo var einnig um Stefán Ólafsson sem lék Norman McDonald leigjanda. Aulalegur allan tímann, trúgjarn og saklaus var Stefán í essinu sínu fékk salinn til að öskra af hlátri. Bessi Theodórsson var mjög fyndinn í hinum stífa en þó trúgjarna og saklausa Jenkins frá félagsmálastofnun. Samleikur þessara þriggja var hreint afbragð. Hafþór Agnar Unnarsson var mjög skemmtilegur í hlutverki Georgs frænda, bandamanns aðalmannsins sem er þó of vitlaus til að geta verið það. Fyndnastur var hann þegar hann var rotaður með einni hurðinni. Sigríður Hafsteinsdóttir vakti mikla samúð og hlátur sem eiginkona Erics en hún heldur að eitthvað allt annað sé í gangi en er raunin. Baldvin Árnason var í litlu hlutverki Dr. Chapmans sem er dreginn inn í brjálæðislega atburðarásina og fær ekki að fara og allt sem hann sagði og gerði tryllti salinn úr hlátri. Bjarni Stefánsso var hátíðlega fyndinn í hlutverki útfararstjórans og Guðný Lára Gunnarsdóttir var óhugnanlega saklaus fulltrúi hins opinbera. Gunnhildur Þórðardóttir kom seint inn, þegar ruglið er í hámarki og lék hina saklausu kærustu vel. Einnig kom Hilda Pálmadóttir sterk inn sem stjórinn óhuggulegi en búið var að byggja upp miklar væntingar hjá áhorfendum varðandi hana.

Það verður að óska Jóni leikstjóra til hamingju með flotta sýningu á erfðum og flóknum farsa og leikfélaginu til hamingju með þennan stóra hóp listamanna þar sem valinn maður var í hverju rúmi.

Hrund Ólafsdóttir