Það er hressandi í annars leiðinda söngleikjasúpu sumarsins að skreppa á tvær bráðskemmtilegar leiksýningar sem eru eins ólíkar og þær eru vel heppnaðar. Um Stútungasögu þeirra Sýnara hefur verið fjallað hér á vefnum og ætla ég ekki að fjölyrða um þá sýningu en tek undir hvert orð sem þar var sagt og gef henni tvær og hálfa stjörnu (mínus hálf stjarna fyrir hvað ég heyrði illa í systrunum á Útnárum í byrjun).
Það er lítið um alvöru tilraunir í íslensku leikhúsi og áhugaleikfélögin hafa verið þar fremst í flokki eða jafnvel ein í flokki. Stofnana og “frjálsa” leikhúsið virðist ekki hafa burði eða áhuga á sinna þessum geira leiklistarinnar að neinu viti.
Reykvíska Listaleikhússið er að gera afar spennandi hluti með Krádplíser. Þarna er tekist á við tilraunir með form, innihald og ákveðna þáttöku áhorfandans í atburðarásinni. Handrit Jóns Atla Jónssonar fylgir ekki ekki hinni sígildu forskrift leikbókmenntanna en textinn er frjór og vekur mann til umhugsunar og fellur vel að umgjörð tilraunaleikhússins. Ólafur Egill Egilsson er að gera fína hluti í leikstjórninni. Hann gengur á ystu nöf í stilfæringu og framsetningu en fer aldrei yfir brúnina og hefur afar góð tök á leikhópnum. Leikmynd og búningar þjóna hugmyndinni fulkomlega og byggingaplastið vakti bæði upp nostalgíu byggingaverkamannsins og viðbjóð. Leikhópurinn er fínn og augljóst að það eru góð efni í leiklistardeild LHÍ. Birgitta Birgisdóttir vakti athygli mína fyrir afar séreknnilegan PR öryggisvörð sem ég held að flest okkar hafi hitt einhverntíman og ekki viljað hitta aftur. Stefán Hallur Stefánsson skapaði einstaklega hressa og ógeðfellda persónu og Ólafur Steinn Ingunnarsson var skemmtilega ísmeygilegur sem Teddi. Eins var Captain Morgan parið hjá Dóru Jóhannsdóttur og Víði Guðmundssyni óviðjafnanlegt.
Ef eitthvað ætti að setja út á sýninguna þá er það helst að ég hefði viljað sjá leikstjórann og leikhópinn taka meiri áhættu með áhorfendur. Í byrjun var eins og áhorfendum væri ætlað eitthvert hlutverk og það hefur ugglaust valdið óhug hjá mörgum. En fljótlega kom í ljós að áhorfendur voru bara áhorfendur og þá hvarf óvissan. Og þótt að uppklapp sé eitthvað sem flesta leikara dreymir um þá var það algerlega á skjön við verkið og það hefði verið áhrifameira ef áhorfednur hefðu þurft að paufast út í myrkri.
En þetta er fín sýning hjá Reykvíska Listaleikhúsinu og ég hvet alla til að sjá hana. Það er ekki hverjum degi sem maður getur upplifað tilraunaleikhús á Grandanum. Þetta er þriggja stjörnu skemmtun.
Lárus Vilhjálmsson