Halaleikhópurinnsvartfugl_teikning
Sjöundá – Svartfugl Gunnars Gunnarssonar
Leikstjóri: Ágústa Skúladóttir

Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson er mikið meistaraverk. Kannski felst snilldin við það helst í því að láta lesandann hafa samúð með þeim sem þó eru líklega sekir, og jafnvel hálfgerða andúð á fórnarlömbunum. Sagan er mjög dramatísk en frásögnin er eins og Ísland í gamla daga. Fábrotin og látlaus. Sögupersónur eru fátækt sveitafólk. Við erum klárlega ekki í amerískri bíómynd þó svo að úr efninu væri auðveldlega hægt að gera slíka.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir skrifar um sýninguna.

Í uppsetningunni Sjöundá hjá Halaleikhópnum var sú leið valin að fá söguna í gegnum réttarhöldin. Leikgerðin er lipurlega skrifuð af Þorgeiri Tryggvasyni. Alltaf þarf að velja og hafna þegar skáldsögur eru leikgerðar en þarna heppnast valið á þeim textum og atriðum sem haldið er inni mjög vel. Þráðurinn í gegnum söguna er skýr og öll atriðin í sýningunni þjóna sögunni. Texti og málfar sögunnar, og sögutímans, er látinn halda sér. Það kom reyndar stöku sinnum fyrir að texti þvældist aðeins fyrir leikurum og varð sumsstaðar aðeins óskýr en það var aðeins á stöku stað og skrifast hugsanlega á frumsýningarstress. Það eru heilmargar flottar setningar í þessari skáldsögu og ekki er laust við að maður taki betur eftir því þegar sagan er sett fram í svo knöppu formi, og upphátt, heldur en við lestur hennar.

Umgjörð sýningarinnar heldur vel utan um heildarmyndina. Það gladdi mig að sjá vísun í Rauðasand (sem bærinn Sjöundá stendur við) í rauðmáluðu gólfinu. Leikið er í miklu návígi við áhorfendur og leikmynd einföld og þó full af snjöllum lausnum. Til dæmis þvælist það lítið fyrir manni að gjarnan er ferðast í tíma og rúmi á augabragði, þegar frásagnir hverfast yfir í leik.

Leikhópurinn er vel samstilltur og hann stóð sig allur mjög vel. Guðríður Ólafsdóttir stal þó senunni eftirminnilega í stórskemmtilegri yfirheyrslu yfir persónunni sem hún lék, Málfríði vinnukonu. Gunnar Gunnarsson sýndi einnig grínaktuga takta sem Guðmundur Scheving, sýslumaður. Árni Salomonsson var líka skemmtilegur í hlutverki Jóns Prófasts. Aðrir réttargæslumenn voru einnig mjög sannfærandi og heilir í hlutverkum sínum. Hjónin tvenn á Sjöundá sem sagan hverfðist um voru feykivel leikin af Þresti Jónssyni og Hönnu Margréti Kristleifsdóttur sem léku Bjarna og Guðrúnu og Gunnari Frey Árnasyni og Sóleyju Björk Axelsdóttur sem léku Steinunni og Jón. Sérstaklega var samleikur Þrastar og Sóleyjar sannfærandi. Ungu sögumennirnir tveir, Hekla Bjarnadóttir og Margréti Lilja Arnarsdóttir eru síðan mjög efnilegar ungar leikkonur og sköpuðu sögunni umgjörð sem um leið undirstrikaði samúðina með aðstæðum Bjarna og Steinunnar.

Ljós og voru vel útfærð og afmörkuðu vel skilin á milli tíma og sögusviða í verkinu og hljóðmynd nafnanna Einars Andréssonar og Einars Melax var algjör snilld. Hentaði vel, féll glæsilega inn í bakgrunninn án þess að trufla mann.

Þessi sýning er klárlega enn ein fjöður í hatt leikstjórans Ágústu Skúladóttur sem hefur getið sér gott orð við uppsetningar „devised“ sýninga og nú síðustu misseri, ópera. Þetta er önnur sýningin sem ég hef séð til hennar við uppsetningu gamalla íslenskra bókmenntaperla og er sannarlega gleðiefni að þessi frábæri leikstjóri skuli sinna íslenskum bókmenntaarfi og setja annað slagið upp svona „gæruskinn“. Það er kannski ósanngjarnt en manni finnst maður varla þurfa að taka það fram að sýningin er frábærlega unnin frá leikstjórans hendi þegar um Ágústu Skúladóttur er að ræða.

Sem sagt, frábærlega unnin sýning upp úr þessu merkilega bókmenntaverki, allt frá verkefnavali til frumsýningar.

Til hamingju, Halaleikhópur.

Sigríður Lára Sigurjónsdóttir.