Boðið var upp á tónleika leikhúsi þeirra Mosfellinga sunnudaginn 9 desember. Lalli Vill var þar og hafði þetta að segja.

Það eru til margar tegundir skemmtikrafta og um jólin býðst upp á flestar sortirnar. Popparar landsins troða upp á ljósvökum og kringlum og  æðritónlistaróperuraularararnir þar og í kirkjunum. Það heyrist allskyns tónlist frá rappi til Johanns Sebastians Bach. En ein er tónlistin sem heyrist ekki oft í radíóviðtækjum og imbakössum landsmanna. Það er sú gleðitónlist sem ég heyrði sunnudaginn 9 desember í bæjarleikhúsi þeirra Mosfellinga í flutningi fjölda listamanna sem eiga rætur sínar í áhugaleikhúsi okkar íslendinga. Gleðitónlist sem hlýjar manni um hjartarætur um leið og hún sprengir brosviprur út í hrossahlátur. Gleðitónlist sem segir svo margt en er þó ekkert að prédika yfir manni. Gleðitónlist sem er alveg mergjuð.

Tónleikarnir hófust með leik dúós úr Kópavoginum sem vantar nafn (ég sting upp á Dúó Árna Balds) og fluttu þau nokkur lög á hófstilltan og vandaðan máta og var sérlega fallegur flutningur Ágústu S. Ágústsdóttur á lagi KK “I think of Angels”.

Næstur á stokkinn var valinkunnur listamaður og bakari úr Kópavoginum, Frosti Friðriksson og var hann að venju stórkostlegur. Það er held ég kominn tími á að Dýravísur hans verði gerðar að skyldusöng á leikskólum, elliheimilum og fangelsum. Þá yrði heimurinn betri held ég.

Það var auðvitað ómissandi að svona í aðventunni að fá heyra hin íðilfagra söng gyðjanna í Tampax tríóinu og auðvitað urðu þær sannspáar  að rauð jól eru óumflýjanleg í ár eins og endranær. Þeirra söngskemmtan er að venju skotheld og ekki vantar heldur elegansinn.

Image Þá vantaði nú alveg elegansinn í Ljótu hálfvitana sem slógu endapunktinn á skemmtunina fyrir hlé. En mikið djöfulli voru þeir skemmtilegir þessir þingeysku hugleikarar og leikritarar. Jólalagið þeirra er í þeim anda að jafnvel Smárinn sjálfur með Debens, Zöru og Hagkaupið ættu að roðna af skömm. Pottþéttir skemmtikraftar, söngvarar og lagasmiðir. Ég býð spenntur eftir næsta leikriti!

Eftir hlé kom á stokkinn dúó að norðan sem heitir því hljómfagra nafni “Hundur í óskilum”. Ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei orðið þess heiðurs aðnjótandi að heyra í þeim Hjörleifi Hjartarsyni og Eiríki Stephensen áður en hafði þó heyrt vel af þeim látið. Það verður að segjast að þeir kumpánar komu mér afar mikið á óvart og voru mun skemmtilegri en mig hafði órað fyrir. Reyndar svo skemmtilegir að ég var komin með magakrampa eftir skamma stund eftir nokkrar velútilátnar hláturkviður. Júróvisjónsyrpa þeirra var náttúrulega óborganleg en ég og aðrir karlmenn í salnum kiknuðu í knjánum og vöknaði um augu þegar við sungum hin nýja baráttusöng okkar (sem reyndar er stolinn frá frúnnum).

Eftir hundinn kom í salinn hinir mergjuðu Túpilakar frá Húsavík. Þeir klikkuðu ekki frekar en fyrri daginn og Oddur Bjarni söng með þvílíkum fítonskrafti að það var auðheyrt að Bretlandsvist hefur fyllt hann innri krafti. Það má segja um túpilakana að þeir spila gleðilög með þvílíkt mergjuðum textum að maður bæði hlær og grætur. Og tónleikunum var síðan lokað með þjóðlagi okkar áhugaleiklistarfólks, Bandalaginu og var það góður endir á frábærum tónleikum.

Það er nú ekki margt sem hægt er að gagnrýna á þessum rúmlega tveggja klukkustunda löngu hljómleikum. Helst mætti gagnrýna það að ekki væri alveg smekkfullur salur og er það runar alveg óskiljanlegt að fólk skuli láta sig missa af svona stórkostlegum tónleikum. Það er þó von því að mér hefur verið sagt að þeir verði endurteknir norðan heiða eftir áramót. Ég skora á því á þá sem að misstu af tónleikunum hér sunnanlands að panta miða strax fyrir norðan.

Og enn og aftur þakka ég frábæra skemmtun og óska öllum landsmönnum til hamingju með þetta frábæra og skemmtilega listafólk sem þeir eru ekki enn búinir að uppgötva og meta af verðleikum. Gleðilega hátíð.

Lárus Vilhjálmsson