Gísli Einarsson skrifar:

Góðir farsar eru alltaf kærkomin glæta í skammdeginu. Nóg er af hörmungum og leiðindum í heiminum sem oftar en ekki rata síðan á leiksvið og þykir reyndar fínt. Ég er hinsvegar þeirrar skoðunar að leikverk eigi fullan rétt á sér og vel það þó þau skilji ekkert annað eftir sig en óminn af hlátursrokunum. Ég hef nefnilega aldrei skilið til fullnustu þá kröfu að list þurfi að vera leiðinleg.

Leikdeild Umf. Skallagríms sýnir: Sex í sveit.
Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson.
Leikendur: Ragnar Gunnarsson, Jónas Þorkelsson, Inga Hólmfríður Gunnarsdóttir, Þórdís Jónmundsdóttir, Þröstur Reynisson og Margrét Pétursdóttir.

Sex í sveit er góður farsi með öllu því sem máli skiptir í slíku leikformi. Ástir og undirferli, misskilningur á misskilning ofan og fáránlegar aðstæður sem persónurnar koma sér í. Verkið nýtur sín vel í meðförum leikdeildar Umf. Skallagríms sem loks er komið í leikhús ef svo má segja eftir að hafa verið á hálfgerðum hrakhólum síðustu ár. Vissulega hefur þeim hjá Skallagrími tekist vel upp í sínum síðustu uppfærslum í iðnaðarhúsnæði hvers konar og kannski varð húsnæðisleysið óbeint til að efla þessa ágætu leikdeild sem var um tíma í svolítilli lægð.

Í góðum farsa er það hraðinn sem er númer eitt og leikhópurinn hefur ágætt vald á keyrslunni. Textinn rennur vel, skýrt fluttur og brandararnir koma í flestum tilfellum á réttum stöðum. Túlkunin er hinsvegar misjöfn eins og gengur og gerist þótt allir komist ágætlega frá sínu. Ég vil nefna sérstaklega Þórdísi Jónmundsdóttur í hlutverki stúlkunnar frá veisluþjónustu Saxbautans. Hún fer hreinlega á kostum og nýtir sér allt það svigrúm sem hún fær í afar kómísku hlutverki en án þess þó að fara yfir strikið. Þá sýnir Þröstur Reynisson að hann er gríðarlega efnilegur leikari. Það er ekki laust við að hann minni mann á gúmmífés á borð við Jim Carrey og Stefán Karl Stefánsson því fetturnar og bretturnar eru með ólíkindum. Það er frekar en hitt að hann þurfi að hafa hemil á andlitinu á sér til að ofleika ekki en það er deild leikstjórans að stilla það af.

Jónas Þorkelsson hefur verið einn af mínum uppáhaldsleikurum frá því ég sá hann fyrst á sviði fyrir nokkrum árum. Hann skilar sínu vel að vanda en hinsvegar verð ég að segja að ég hef séð hann enn betri. Sem fyrr segir standa aðrir sig með prýði og úr verður létt og sprenghlægileg kvöldstund í Lyngbrekku. Sumsé góð byrjun á nýjum stað og vonandi fáum við fljótlega að sjá enn betur hvað býr í þessari öflugu leikdeild.

Gísli Einarsson

Umfjöllun birtist á Skessuhorni

{mos_fb_discuss:2}