Á Smíðaverkstæði Þjóðleikhússins verður frumsýnt þann 20. október verkið Frelsi eftir Hrund Ólafsdóttur. Þetta er frumraun Hrundar í atvinnuleikhúsi. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson.
Hvað gerir þú þegar enginn hlustar á þig? Þegar ranglætið er svo mikið að þú gætir öskrað þig hásan en þú átt þér ekki rödd? Þegar lygin er svo stór að hún kæfir lífið sem þú ættir að sjá framundan? Grímur er klár menntaskólastrákur í Reykjavík sem er ekki sáttur við umhverfi sitt og samfélag. Hann kynnist Brynhildi sem er töff og leitandi stelpa og saman ákveða þau að láta í sér heyra. Hugmynd fæðist. En í heimi þar sem peningar eru mælikvarði alls, hvers virði eru þá mannslíf? Í þannig heimi geta hugmyndir um réttlæti orðið hættulegar.
Hrund Ólafsdóttir lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1979, BA prófi í almennri bókmenntafræði og uppeldis- og kennslufræði frá Háskóla Íslands 1985 og MA prófi í almennum bókmenntum frá New York University í Bandaríkjunum 1989. Hrund hefur sótt fjöldann allan af leikara- og leikstjórnarnámskeiðum, mest hjá Leiklistarskóla Bandalags íslenskra leikfélaga í Svarfaðardal. Einnig hefur hún tekið þátt í höfundasmiðjum á vegum Þjóðleikhússins. Hún hefur verið ákafur áhugaleikari um margra ára skeið með Leikfélaginu Sýnum, Leikfélagi Kópavogs og Ungmennafélagi Reykdæla, og spreytt sig í auknum mæli á leikstjórn í áhugafélögum. Hrund hefur einkum starfað við kennslu í framhaldsskólum, en einnig skrifað bókmennta- og leiklistargagnrýni fyrir Morgunblaðið síðastliðin ár. Hrund hefur skrifað stutta einleiki og leikþætti en Frelsi, sem Þjóðleikhúsið sýnir á Smíðaverkstæðinu, er fyrsta leikverk hennar í fullri lengd og jafnframt það fyrsta sem tekið er til sýninga í atvinnuleikhúsi.
Leikendur í Frelsi eru Ólafur Steinn Ingunnarson, en þetta er frumraun hans í Þjóðleikhúsinu, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Gísli Pétur Hinriksson, Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir, Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Sigurður Skúlason og Anna Kristín Arngrímsdóttir.
Allir listrænir aðstandendur sýningarinnar eru að stíga sín fyrstu skref í Þjóðleikhúsinu. Tónlistina semur Hallur Ingólfsson, lýsing er í höndum Sólveigar Eiríksdóttur, leikmynd og búninga gerir Ólafur Jónsson og leikstjóri er sem fyrr segir Jón Páll Eyjólfsson.