Fimmtudaginn 5. janúar kl 12.oo verður opinn samlestur í Borgarleikhúsinu á verkinu Úti að aka eftir Ray Cooney. Þetta er liður í því að opna leikhúsið og skapa skemmtilegan formála að væntanlegum sýningum. Fyrsta skrefið í æfingum leikrita er svokallaður samlestur. Þá kemur starfsfólk saman, ásamt listrænum stjórnendum og leikurum og lesa leikritið upphátt. Auk þess kynna leikstjóri, leikmynda- og búningahöfundar hugmyndir sínar og fyrir vikið er fyrsti samlestur oft eins konar hátíðarsamkoma. Þetta er upphaf langrar ferðar sem lýkur með pompi og prakt á frumsýningunni.  Allir velkomnir og heitt kaffi á könnunni.

Úti að aka er farsi eins og þeir gerast bestir. Jón Jónsson, leigubílstjóri, er ekki allur þar sem hann er séður; hann á tvær eiginkonur, þær Guðrúnu í Hafnarfirði og Helgu í Mosfellsbæ. Guðrún veit ekki af Helgu og Helga hefur ekki hugmynd um Guðrúnu og Jón brunar sæll og glaður milli bæjarfélaga til að sinna báðum heimilum. En Adam var ekki lengi í Paradís! Börnin hans, af sitt hvoru hjónabandinu, kynnast fyrir slysni á Facebook og plana stefnumót. Til að afstýra stórslysi kokkar Jón upp fjarstæðukenndan lygavef þar sem enginn veit lengur hvað snýr upp og hvað niður. Á endanum er ekki ljóst hver hefur leikið á hvern eða hver er í rauninni úti að aka.

Höfundurinn Ray Cooney er farsælasta gamanleikjaskáld samtímans. Borgarleikhúsið hefur áður sýnt verk hans við gríðarlegar vinsældir og metaðsókn, Viltu finna milljón, Nei, ráðherra! og Beint í æð! Gísli Rúnar Jónsson íslenskaði og staðfærði öll verkin við afbragðs viðtökur.

Í Úti að aka er einvala hópur leikara undir stjórn Magnúsar Geirs Þórðarsonar.

Aðstandendur:
Höfundur: Ray Cooney  |  Þýðing: Gísli Rúnar Jónsson | Leikstjóri: Magnús Geir Þórðarson | Leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson | Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson | Tónlist: Amabadama | Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir  |  Hljóð: Ólafur Örn Thoroddsen |  Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Halldór Gylfason, Halldóra Geirharðsdóttir, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Ilmur Kristjánsdóttir.