Laugardaginn 17. febrúar hefjast sýningar á Pétri og úlfinum eftir Sergei Prokofief í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu. Hér er um að ræða brúðusýningu snillingsins Bernds Ogrodniks sem er íslenskum leikhúsgestum að góðu kunnur eftir áralangt starf. Bernd smíðar allar brúðurnar og leikmyndina úr linditré og íslensku birki og stjórnar þeim í litríkri og spennandi sýningu. Helga Björt Möller gerði búninga og Ari Baldursson vann hljóðmynd.

Rússneska tónskáldið Sergei Prokofief samdi bæði texta og tónlist í Pétri og úlfinum á einni viku árið 1936 með það fyrir augum að leiða unga hlustendur inn í heim sígildrar tónlistar. Verkið hefur notið gífurlegra vinsælda æ síðan og unnið sér fastan sess á verkefnaskrá hljómsveita um allan heim.

peturogulf.gifÍ Pétri og úlfinum er sagan af litla drengnum, afa hans, öndinni og úlfinum sögð með hljóðfærum sinfóníuhljómsveitar og það er fiðlan sem leikur Pétur, óbóið leikur öndina, þverflautan leikur lítinn fugl og klarinettið er kötturinn. Fagottið fer með hlutverk afans en hornið leikur úlfinn.

Bernd Ogrodnik hefur sett upp fjölmargar brúðusýningar á leiksviði, í sjónvarpi og kvikmyndum um allan heim en hann hefur verið búsettur á Íslandi um árabil. Fyrri verkefni hans í Þjóðleikhúsinu, svo sem brúðusýningin Umbreyting og brúður í barnasýningunni Klaufum og kóngsdætrum, hrifu alla sem sáu og uppskáru mikið og einróma lof gagnrýnenda. Bernd hefur auk þess gert brúður fyrir sýningar eins og Koddamanninn og Ronju ræningjadóttur. Ráðgerðar eru átta sýningar í Kúlunni í febrúar svo hér gefst börnum og foreldrum einstakt tækifæri til að kynnast heimi brúðuleikhússins og sígildri tónlist í höndum Prokofiefs og Bernds Ogrodniks.

Sýningar fara fram laugardaga og sunnudaga kl. 13.30 og 15.00. Nánari upplýsingar og miðasala eru á vef Þjóðleikhússins leikhusid.is.