Fimmtudagskvöldið 21. júní mun Rauða skáldahúsið halda sínu fimmtu sýningu, en í þetta skiptið fagnar hópurinn eins árs afmæli. Sýningin fer fram í Iðnó frá klukkan 20-23 og er miðaverð 3000 kr, en hálfvirði fyrir nema. Verður þetta fyrsta sýning í Iðnó eftir að húsnæðið opnar að nýju eftir að hafa verið lokað undanfarnar vikur.
Rauða skáldahúsið er blanda af ljóðakvöldi, leikhúsi og kabarett, þar sem ljóðskáld selja gestum einkalestra í náinni umgjörð.
Þema sýningarinnar er Draumur á Jónsmessunótt og verða tvö aðalskáld að þessu sinni; Hallgrímur Helgason sem mun lesa upp úr þýðingum sínum á Shakespeare og austurríska skáldið Cornelia Travnicek sem kemur sérstaklega til landsins til að taka þátt. Mun hún fara með ljóð á þýsku sem verða einnig flutt í enskri þýðingu Meg Matich. Kvöldið fer því fram á íslensku, ensku og þýsku.
Önnur ljóðskáld kvöldsins eru Lommi, Ragnheiður Erla, Ingimar Bjarni, Kailyn Phoenix, Ana Stanicevic, Sólveig Stjarna og Cassandra Ruiz.
Ásamt ljóðskáldum sem koma fram og bjóða einkalestra til sölu verða stórkostleg skemmtiatriði í umsjá Deff Starr sem verður í hlutverki Puck, Ungfrú Hringaná, Johnny Wonder og Maríu Callistu. Nornin Snæugla verðu svo á sínum stað og býður upp á tarot spálestur.
Svo af nógu er að taka, ljóð, lifandi tónlist, dans, burlesque, sirkúsatriði, töfrabrögð, tarot spá og svo verður barinn vitaskuld opinn.
Miðasalan fer fram á midi.is

Viðburðahópurinn Huldufugl stendur að sýningum Rauða skáldahússins sem fara fram á 2-3ja mánaða fresti. Fyrrum aðalskáld hafa verið Kristín Eiríksdóttir, Kristín Ómarsdóttir, Kött Grá Pje og Sjón. Ætlunin er að lokka að nýja aðdáendur ljóðlistar með að setja ljóðakvöld í gagnvirkan og skemmtilegan heim. Sérstök aukasýning verður haldin 8. júlí sem hluti af Reykjavík Fringe Festival þar sem þemað verður ‘Gullnu árin’.

Frekari upplýsingar má finna á