Hin margrómaða ástarsaga Bergsveins Birgissonar verður frumsýnd á Nýja sviði Borgarleikhússins á föstudaginn 27. apríl næstkomandi. Hér er á ferðinni hrífandi saga um þrá og eftirsjá. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2010 og valin besta skáldsaga ársins að mati bóksala það sama ár. Aðstandendur sýningarinnar eru margir hverjir þeir sömu og sviðsettu Fólkið í Kjallaranum sem hlaut 9 tilnefningar til Grímunnar á síðasta ári, m.a. sem leiksýning ársins og gekk fyrir troðfullu húsi yfir á annað leikár. Höfundur leikgerðar er Ólafur Egill Egilsson og leikstjóri er Kristín Eysteinsdóttir.

Í burðarhlutverkum eru þau Ilmur Kristjánsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson. Endurmenntun Háskóla Íslands stendur fyrir sérstöku námskeiði um skáldsöguna, leikverkið og uppsetninguna þar sem þátttakendur sækja æfingar og taka þátt í umræðum um verkið. Umsjón með námskeiðinu hafa þeir Bergsveinn Birgisson og Ólafur Egill Egilsson en að námskeiðinu koma einnig listrænir stjórnendur sýningarinnar og leikarar. Bókaútgáfan Bjartur endurútgefur bókina með nýrri kápu (einkennismynd leikverksins) í tengslum við sýninguna. Þegar er uppselt á fyrstu 23 sýningar verksins og aukasýningar komnar í sölu fyrir þetta leikár.

Bjarni skrifar bréf til konunnar sem honum bauðst að fylgja til borgarinnar forðum. Gerði hann rétt að taka jörðina fram yfir ástina? Hefði hann fremur átt að flytjast til Reykjavíkur til að moka skurð eða reisa bragga fyrir Ameríkana? Minningar úr sveitinni, vangaveltur um lífið og tilveruna og rammíslenskt fólk fléttast inn í safaríkar frásagnir af því sem hann kallar fengitíð lífs síns. Forboðnar ástir renna saman við sagnir af reyktum líkum, lágfættum hrútum og því þegar Farmallinn kom.

Snorri Freyr Hilmarsson hannar leikmynd og búninga og Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu. Frank Þór Hall er höfundur tónlistar. Leikarar eru Þröstur Leó Gunnarsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Sigrún Edda Björnsdóttir, Gunnar Hansson og Ellert A. Ingimundarson.

Endurmenntunarnámskeið Í tengslum við uppfærslu Borgarleikhússins á Svari við bréfi Helgu er efnt til námskeiðs um skáldsöguna, leikverkið og uppsetninguna. Þátttakendur sækja eina dagæfingu á verkinu og síðan lokaæfingu. Námskeiðinu lýkur með umræðukvöldi þar sem leikstjóri, leikmyndar- og búningahönnuður, leikarar og þátttakendur ræða sýninguna.  Miði á lokaæfingu er innfalinn í námskeiðsgjaldi. Skráningarfrestur er til 10. apríl 2012. Nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Endurmenntunar Háskóla Íslands.

{mos_fb_discuss:2}