thjodleikhus_logo.gifAlþjóðasamtök leiklistarfólks, ITI, sem er ein af undirstofnunum UNESCO hafa frá 1962 haft 27. mars ár hvert sem Alþjóðlegan leiklistardag. Leiklistarsamband Íslands, sem er Íslandsdeild ITI, hefur frá stofnun sinni haldið upp á þennan dag og fengið hverju sinni málsmetandi listamann úr sínum röðum til að semja ávarp í tilefni dagsins. Að þessu sinni er það brúðuleikhúslistamaðurinn Bernd Ogrodnik, sem hefur búið og starfað á Íslandi síðustu ár og auðgað íslenskt leikhúslíf eftirminnilega.

Þjóðleikhúsið tekur virkan þátt í því að opna dyr leikhússins í tilefni dagsins og treysta sambandið milli áhorfenda og leikhúsgesta og gerir það undir heitinu: Á sviðsbrúninni.

Á föstudagskvöld 23. mars flytur Bernd Ogrodnik ávarp Alþjóða leiklistardagsins á Stóra sviðinu fyrir sýningu á Ímyndunarveikinni eftir Moliére sem er frönsk gestasýning.
Á laugardagskvöld 24. mars eftir sýningu á söngleiknum Legi eftir Hugleik Dagsson gefst gestum kostur á að spjalla við leikarar úr sýningunni og leggja fyrir þá spurningar úr sal. Sýningin hefst kl. 20.00.
Að lokinni seinni sýningu á Sitji guðs englar eftir Guðrúnu Helgadóttur sunnudaginn 25.mars munu gestir fá tækifæri til að spjalla við leikara úr sýningunni og leggja fyrir þá spurningar. Sýningin hefst kl. 17.00.

Vigdís Jakobsdóttir deildarstjóri fræðsludeildar leikhússins stýrir þessum umræðum bæði kvöldin.
Þess má svo geta að um þessar mundir sýnir Bernd Ogrodnik brúðusýninguna Pétur og úlfinn eftir Sergei Prokofief í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu við góðar undirtektir barna og fullorðinna.

Leiklistardögunum lýkur síðan með leiklistarþingi að kvöldi Alþjóðaleiklistardagsins þriðjudaginn 27. mars og fer það fram í Þjóðleikhúskjallaranum.