Á fimmtánda starfsári sínu setur Halaleikhópurinn upp leikritið Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar.
Verkið segir sögu sjómannsins Sigmars sem lendir í vinnuslysi og ákveður að fá sig úrskurðaðan öryrkja í þeim tilgangi að njóta lífsins á kostnað skattgreiðenda. Það ætlunarverk tekst honum en rekur sig brátt á að líf öryrkjans er kannski ekki alveg eins og hann hafði ímyndað sér.

logohali.png Halaleikhópurinn
Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson
Leikstjóri: Ármann Guðmundsson
Sýnt í Hátúni 12

 

Á fimmtánda starfsári sínu setur Halaleikhópurinn upp leikritið Batnandi maður eftir Ármann Guðmundsson í leikstjórn höfundar. Halinn var stofnaður haustið 1992 í því augnamiði að gefa fötluðum tækifæri til að iðka leiklist enda tæplega mörg tækifæri sem bjóðast t.d. leikara sem fastur er í hjólastól í hefðbundnari leikfélögum. Verkefnaval félagsins hefur því skiljanlega tekið mið af þessu. Halinn er orðinn fastur punktur í leiklistarflórunni og hefur sett upp ýmsar eftirminnilegar sýningar.

batnandi2.gif Verkið segir sögu sjómannsins Sigmars sem lendir í vinnuslysi og ákveður að fá sig úrskurðaðan öryrkja í þeim tilgangi að njóta lífsins á kostnað skattgreiðenda. Það ætlunarverk tekst honum en rekur sig brátt á að líf öryrkjans er kannski ekki alveg eins og hann hafði ímyndað sér.
Batnandi maður er gamanverk en þó er í því broddur. Verkið gæti vel staðið fyrir sínu í meðförum ófatlaðra leikara en hætt er við að tónninn yrði talsvert öðruvísi en í þessari sýningu Halans þar sem fatlaðir leikarar eru í miklum meirihluta. Háðið snýst að mestu um árekstra sem verða þegar Sigmar þarf skyndilega að lifa og hrærast í reynsluheimi fatlaðs manns. Ýmsar skondin atvik eru sýnd þar sem fáfræði Sigmars er opinberuð en háðið beinist stundum inn á við og sýnir að fatlaðir hafa einnig húmor fyrir sjálfum sér. Ýmsir furðufuglar koma við sögu og má þar t.d. nefna ofstækisfullar mæðgur í þjónustu hins opinbera, bandarískan kraftaverkapredikara og Hátúnsmafíuna sem leidd er af besta örvhenta bocciaspilara landsins. Atriðið þar sem sá síðastnefndi mætir á trúarsamkomuna er eitt af mörgum afar spaugilegum hliðaratriðum sem hjálpuðu til við að lyfta sýningunni upp.

Leikverkið er röð stuttra atriða þar sem hoppað er á milli staða og og yfirleitt var ágætt flæði í sýningunni. Þó má spyrja hvort ekki hefði átt að skoða betur möguleika í skiptingum, fækka myrkvunum eða jafnvel sleppa þeim alveg og treysta betur á getu og vilja áhorfenda til að lifa sig inn í þann heim persónurnar lifa í. Þess ber þó að geta að húsnæði Halans er langt frá því að vera hentugt til leiksýninga og hefur greinileg áhrif á möguleikana sem í boði eru til þessa. Þá hefði gjarnan mátt eyða aðeins meiri tíma í að skoða hvernig Sigmar rekur sig á eiginlega og óeiginlega þröskulda þegar hann skyndilega er orðinn bundinn í hjólastól.
predikari.png

Frammistaða leikenda var misjöfn eins og gengur en flestir stóðu sig að mestu leyti vel. Aðalhlutverkið er í höndum Kristins Þ. Sigurjónssonar og skapaði hann "sympatískan" karakter úr persónu Sigmar. Kristinn fór hægt af stað en vann á eftir því sem tíminn leið. Besti vinur hans Gunnar er leikinn af Gunnari Gunnarssyni og var samleikur þeirra félaga yfirleitt áreynslulaus og sannfærandi. Þremenningarnir í Boccialiðinu, þau Hanna Margrét Kristleifsdóttir, Jón Eiríksson og Sóley Björk Axelsdóttir sýndu mikið öryggi og kraft í hlutverkum sínum. Þá sýndi Ásdís Úlfarsdóttir góða takta í hlutverki leiðtoga Fossins og sama má segja um Þröst Steindórsson sem kraftaverkalækninn Jeremiah B. Lightfoot.
Sérlega eftirminnileg var einnig Hátúnsmafían og hefur undirritaður ekki séð annað eins gengi síðan hann sá kvikmyndina Warriors seint á áttunda áratugnum.

Heilt yfir var það afar ánægjuleg kvöldstund sem undirritaður átti með Halanum í Hátúni 12 og margt spaugilegt sem sat eftir í minningunni á heimleiðinni en einnig ýmislegt annað sem krafðist alvarlegri íhugunar.

Hörður Sigurðarson

{mos_fb_discuss:2}