Ég fór í gærkvöldi að sjá Fullkomið brúðkaup hjá Leikfélagi Akureyrar. Ég get sagt ykkur það að aðra eins snilld hef ég ekki séð í langan tíma. Fullkomið brúðkaup er hættulega fyndið. Sýningin er keyrð áfram af miklu öryggi og hraða  frá upphafi til enda. Fullkomið brúðkaup kom mér skemmtilega á óvart og óhætt að mæla með þessari kvöldstund. Það er öruggt að gestir fá vel fyrir aurinn sinn og geta að auki sparað lyf næsta mánuðinn því að slíkur hlátur hlýtur að lækna allt, en þó má benda hjartveikum á að taka sín áfram.
Ég fór í gærkvöldi að sjá Fullkomið brúðkaup hjá Leikfélagi Akureyrar. Ég get sagt ykkur það að aðra eins snilld hef ég ekki séð í langan tíma. Fullkomið brúðkaup er hættulega fyndið. Sýningin er keyrð áfram af miklu öryggi og hraða  frá upphafi til enda. Fullkomið brúðkaup kom mér skemmtilega á óvart og óhætt að mæla með þessari kvöldstund. Það er öruggt að gestir fá vel fyrir aurinn sinn og geta að auki sparað lyf næsta mánuðinn því að slíkur hlátur hlýtur að lækna allt, en þó má benda hjartveikum á að taka sín áfram.

Leikhópurinn er stjarna kvöldsins. En á toppnum trónir Maríanna Clara Luthersdóttir, hún fer gjörsamlega á kostum og er ég sit hér og hugsa um hana og rita þessa rýni fæ ég verki í brosvöðvana og velti því fyrir mér hvað hún var að segja þegar ég missti af vegna hlátraskallanna í sjálfum mér.  Guðjón Davíð Karlsson stimplar sig inn sem karlkyns gamanleikari númer eitt á íslandi, hann var frábær. Fas, hreyfingar, svipir og raddbeiting var ófyrirgefanlega gott. Álfrún Örnólfsdóttir kom mér verulega á óvart. Ég hef ekki séð hana leika mikið fram að þessu, og ég kom henni ekki fyrir mig sem gamanleikkonu en nú sé ég ekki neina aðra sem gæti leikið þetta hlutverk. Hún var sæt og krúttleg og manni hlýnaði í hjartanu og ég trúði öllu sem hún sagði. Hún smellpassaði í hlutverkið.
Esther Thalia Casey skilaði erfiðu og vanþakklátu hlutverki afar vel, hún var óþolandi góð og fær fullt af stjörnum. Jóhannes Haukur sýndi á köflum snilldartakta, honum tókst vel að skila reiði og spennu án þess að fara yfir strikið. Þráinn Karlsson sýndi hvað hann er góður leikari, hann skilaði sínu með miklum glæsibrag og færði sýningunni þroska og góðan anda. Engin sýning er gallalaus en þessi hefur mjög fáa og þeir munu slípast af eins og tal ofan í hlátur og raddbeiting.

Leikmynd Frosta Friðrikssonar er einföld, en úthugsuð, snilld. Það er hraði og spenna í henni og hún gerir nákvæmlega það sem hún á að gera. Það er ljóst að leikstjórinn Magnús Geir hefur unnið afar vel og skilar hér myljandi fyndinni sýningu með nýjum og spennandi hóp sem hann hefur náð að slípa saman og bremsa af á línunni. Ég held að það sé óhætt  fyrir hann og hans fólk að byrja á því að breyta sýningarplönum á öðrum verkum í húsinu því að Fullkomið brúðkaup á eftir að ganga vel og lengi. Það var mikið klappað í samkomuhúsinu á Akureyri á frumsýningunni og það voru verulega glaðir áhorfendur sem gengu út í svalt eyfirskt kvöldið.

  Júlíus Júlíusson