Hassið hennar mömmu eftir Daríó Fó
Halaleikhópurinn
Leikstjórar:  Margrét Sverrisdóttir og Oddur Bjarni Þorkelsson

Þann tíunda febrúar síðastliðinn frumsýndi Halaleikhópurinn enn eitt leikverkið í leihúsi sínu að Hátúni 12 í Reykjavík. Það er  alltaf jafn merkilegt að sjá sýningar Halans þar sem fatlaðir og ófatlaðir vinna saman að því að brjóta niður múrana.  Hópurinn hefur komið víða við og safnað mikilli reynslu. Þessi árin rúlla þau upp hverri stórsýningunni af annarri  og alltaf bætist nýtt fólk í hópinn.

Leikstjórarnir Margrét og Oddur Bjarni setja nú upp með Halanum í annað sinn og tekst afar vel upp.  Í fallegri leikskránni stendur að þetta sé leikgerð af þýðingu Stefáns Baldurssonar en ekki útskýrt nógu vel hvað það þýðir.  Hassið hennar mömmu er kannski ekki með alþekktustu leikritum hins flinka Daríós Fós en það var sýnt hjá Leikfélagi Reykjavíkur árið 1982 við hlátrasköll og vinsældir. Þetta er farsi og það verður að viðurkennast að rýnirinn hafði nokkrar efasemdir fyrirfram um hraðagetu hjólastóla inn og út um dyr.  Hafði sem sagt fordóma þrátt fyrir að vera í  aðdáendaklúbbi Halaleikhópsins. Í stuttu máli gekk farsinn alveg upp leikstjórnarlega auk þess sem pólitískur broddur höfundar fékk að njóta sín í heimsku löggunni og spillta prestinum, fulltrúum ríkisvalds og kirkju sem Daríó Fó gerir eilíflega grín að svo áhorfendur grenja úr hlátri. 

Leikritið er skrifað 1976 sem grínádeila á  ungmenni í eiturlyfjum og óður til samheldni og samstöðu þeirra sem minna mega sín. Sýningin var hlýleg og fyndin og umgjörðin öll til fyrirmyndar. Það var leikið langsum eftir salnum í leikmynd sem var sannfærandi íbúð lágstéttarfólks með svölum og allt. Lýsingin var snjöll og trixin flott.  Það var vel valið í hlutverkin og gaman að sjá hvernig kynjunum var snúið við til að henta leikaravalinu. Afinn varð að ömmu, mamman að pabba og heimska löggan var samkynhneigð kona.  Önnur hlutverk voru í réttu kyni og prýðilega leikin. Rýnir sá aðra sýningu en þá gætti aðeins hiks og textatafs sem vonandi slípast af sýningunni.

Það er ástæða til að mæla með Hassinu hjá Halanum því þar fer saman afar gott leikrit, góð leikstjórn og fín umgjörð.

Hrund Ólafsdóttir