Leikdeild UMF Vöku3.haed2
Á þriðju hæð / Amor ber að dyrum
Leikstjóri Þorsteinn Logi Einarsson

Mér var boðið í heimsókn upp í Þjórsárver á dögunum til að heimsækja leikdeild UMF. Vöku og sjá afrakstur erfiðis þeirra undanfarnar vikur. Það þurfti ekki kurteisissaka við til að þekkjast boðið enda ekki vanur öðru en góðum og skemmtilegum sýningum hjá leikdeild Vöku. Að þessu sinni var mér boðið upp Á þriðju hæð og að fylgjast með þegar Amor ber að dyrum.

Sýningin var í raun tveir farsakenndir einþáttungar, Á þriðju hæð eftir Vilhelm Mejo og Amor ber að dyrum eftir George Falk. Verkin eiga það sameiginlegt að einkennast af óvæntum heimsóknum sem skapa skemmtilegan misskilning sem vindur upp á sig eftir því sem líður á söguna. Allt er þetta soðið saman í skemmtilegum hraðsuðukatli, vel kryddað með gríni og glensi. Leikstjóri er heimamaðurinn Þorsteinn Logi Einarsson frá Egilstaðakoti og er þetta frumraun hans í leikstjórastólnum. Hann hefur fengið til liðs við sig góðan hóp ungra leikara á aldrinum 14 – 29 ára sem sum eru að stíga sín fyrstu skref en önnur eru reynslunni ríkari þrátt fyrir ungan aldur.

Á þriðju hæð
Áhorfendur voru komnir inn í litla settlega stofu hjá ágætlega efnuðu fólki. Þar birtust okkur nokkrir skrautlegir karakterar sem flestir höfðu mikla þrá til hins kynsins, en ekki voru það alltaf réttir aðilar sem hlutu þá aðdáun sem bjó í brjósti persónanna. Það varð til þess að flækja málin á ýmsa vegu auk þess sem persónurnar urðu sér út um ýmsan annan misskilning sem gerði málin flóknari en um leið skemmtilegri.
Verkið og ekki síður málfarið er komið nokkuð til ára sinna, að mínu mati um of. Staðarnöfn voru flest staðfærð upp á nærsveitir og var það skemmtilegt en málfarið hefði mátt fylgja með og uppfæra í nútímann eða a.m.k. nær okkur. Auk þess var meðferð textans á stundum nokkuð óskýr hjá sumum leikendum og náði ekki eyrum áhorfenda með góðu móti. Sum atriði milli persóna hefðu einnig mátt fá að lifa betur og vera hreinni. Heimsóknin á þriðju hæðina var engu að síður skemmtileg og fjörug en leikstjóri hefði mátt vinna betur með samspil leikara, texta og framvindu verksins.

Amor ber að dyrum
Eftir að hafa rennt niður kaffibolla og kökum í hléi var áhorfendum boðið í aðra og enn heimilislegri stofu. Að þessu sinni voru gestgjafarnir tvær aldraðar systur sem virtust hafa það helst fyrir stafni að nöldra hvor í annarri svo dagleg rútína hinnar mætti riðlast. Þegar ungur og myndarlegur piltur úr næstu íbúð bankar upp á og biður sakleysislega um smá viðvik lifnar heldur betur yfir systrunum og þær finna hvernig æskuljóminn heltekur huga þeirra og hjarta sem verður til þess að þær keppast við að finna ný ráð til að klófesta hinn unga Amor úr næstu íbúð.
Samspil systranna er frábært og Tómas Karl og Guðmunda eru með skemmtilegri eldri konum sem ég hef hitt fyrir og leikþátturinn í heild afar vel heppnaður og stórskemmtilegur í alla staði. Leikendur eru allir til fyrirmyndar og verkið fær að njóta sín í góðri meðferð og flæði eftir aðstæðum hverju sinni.

Umgjörðin um bæði verkin var nokkuð einföld en um leið stílhrein á öllum sviðum og lítill ljósagaldur í Amor ber að dyrum undirstrikaði það en öll hönnun sýningar var unnin af leikstjóra og öðrum heimamönnum. Leikendur stóðu sig flestir vel og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hina ungu framtíðarleikara Ásrúnu Höllu Loftsdóttur og Svein Orra Einarson stíga sín fyrstu skref með Leikdeild Vöku. Ég get því ekki annað sagt en þessi heimsókn í Þjórsárver hafi verið góð skemmtun sem kitlaði hláturtaugarnar vel og innilega og hvet fólk til að heimsækja þessi tvö litlu settlegu heimili sem hafa tekið sér bólfestu á sviðinu í Þjórsárveri.

Leikarar í sýningunum:
Kolbrún Lilja Guðnadóttir, Guðjón Björnsson, Tómas Karl Guðsteinsson, Helga Björg Helgadóttir, Ástrún Halla Loftsdóttir, Þorsteinn Logi Einarsson, Guðmunda Ólafsdóttir, Sveinn Orri Einarsson.

Don Ellione