Starfstími skólans á þessu ári er frá 12. til 20. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði.

Í sumar verða þrjú námskeið í boði sem öll gera ráð fyrir þekkingu og reynslu nemenda. Ágústa Skúladóttir verður með Leiklist II, framhald af velheppnuðu byrjendanámskeiði sem haldið var í fyrrasumar. Rúnar Guðbrandsson stýrir masterclass námskeiði í leikstjórn og byggir þar ofan á góðan grunn. Þá bjóðum við sérstaklega velkominn nýjan kennara, Þorsteinn Bachmann, sem býður reyndari leikurum upp á námskeið þar sem lögð verður áhersla á sjálfstæði og frumsköpun leikarans.

Auk námskeiðahalds bjóðum við höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif.

Bæklingur skólans starfsárið 2017 er hér á PDF formi:

Leiklistarskóli BÍL 2017


Kveðja frá skólanefnd:

Kæra leiklistarfólk!

Þá er komið að tuttugasta og fyrsta starfsári leiklistarskólans. Það er mjög gefandi að fá að taka þátt í að móta þetta skólastarf sem hefur hvatt, styrkt, menntað og glatt svo marga. Þetta sumar stöndum við á tímamótum. Við þökkum forsvarsmönnum á Húnavöllum kærlega fyrir lipurt samstarf en jafnframt hlökkum við til að setja skólann í fyrsta sinn að Reykjaskóla í Hrútafirði.

Í sumar verða þrjú námskeið í boði sem öll gera ráð fyrir þekkingu og reynslu nemenda. Ágústa Skúladóttir verður með Leiklist II, framhald af velheppnuðu byrjendanámskeiði sem haldið var í
fyrrasumar. Rúnar Guðbrandsson stýrir masterclass námskeiði í leikstjórn og byggir þar ofan á góðan grunn. Þá bjóðum við sérstaklega velkominn nýjan kennara, Þorsteinn Bachmann, sem býður reyndari leikurum upp á námskeið þar sem lögð verður áhersla á sjálfstæði og frumsköpun leikarans.

Auk námskeiðahalds bjóðum við höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif. Ekki er um að ræða námskeið eða leiðsögn heldur fá höfundar tíma og frið til að rækta sköpunargáfuna.

Vakin er sérstök athygli á því að skólinn verður settur á mánudagsmorgni að þessu sinni og skólaslit verða á þriðjudegi. Við vonum að sem flestir eigi þess kost að nema og njóta.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gísli Björn.


Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 1. maí.

Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.
Staðfestingargjaldið er greitt inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239

Starfstími skólans á þessu ári er frá 12. til 20. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði, vestur-Húnaþingi.

Skólasetning er mánudaginn 12. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 þriðjudaginn 20. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða í Reykjaskóla: Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjöld á námskeiðin eru kr. 92.000, Höfundar í heimsókn borga 70.000.
Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Staðfestingargjald er kr. 40.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða símleiðis með greiðslukorti.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.

Umsóknum skilað

Umsóknum skal skila á netfangið info@leiklist.is og um leið þarf að leggja staðfestingargjaldið, kr. 40.000.- inn á 334-26-5463, kt. 440169-0239. Eftirtaldar upplýsingar þarf að senda í tölvupósti: Hvaða námskeið er verið að sækja um, nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, bæjarfélag, netfang og símanúmer. Þar sem krafist er undirbúningsnámskeiða eða reynslu á öll námskeiðin í ár skal láta ferilskrá fylgja umsókn.


Námskeið 1

Leiklist II – Grunnnámskeið
Kennari Ágústa Skúladóttir
Þátttökugjald: kr. 92.000
Tími: 12. til 20. júní 2017
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 1. maí

Námskeiðið er framhaldsnámskeið fyrir leikara og ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða sambærileg námskeið. Þeir sem sótt hafa Leiklist I og hafa ekki áður sótt Leiklist II ganga fyrir.

Námskeiðið byggir á þeim grundvallarþáttum sem voru uppistaðan á Leiklist I; útgeislun og léttleika leikarans, samspili við meðleikara og áhorfendur og samvinnu í hópi, en að þessu sinni verður gengið lengra í að rannsaka þá umbreytingu sem á sér stað þegar unnið er með sama leiktextann í mismunandi leikstílum.

Þátttakendur munu fá sendar fyrirfram tveggja manna senur úr klassískum leikritum (Shakespeare/Chekov, nánar tilkynnt síðar), sem þeir þurfa að kunna utanbókar en HLUTLAUST áður en skóli hefst. Síðan munum við kanna hvaða áhrif mismunandi stíll hefur á merkingu og innihald hverrar senu.
Hvað gerist þegar sena er leikin dramatískt? Eða tragíkómískt? Melódramatískt? Hvernig fara tveir búffonar með senuna? Eða tveir trúðar? Einnig verður litið á hvernig kórinn, þ.e. allir hinir, geta mynd- og hljóðskreytt leiksenuna, hvernig virkar hún best? Með einum söngvara, þremur eða stórum hópi?

Eins og fyrr byggist þetta námskeið á mikilli virkni allra þátttakanda sem þora að taka áhættu, prófa og mistakast, prófa og takast og vera stöðugt á tánum!


Námskeið 2

Leikstjórn – Sérnámskeið, Master Class
Kennari Rúnar Guðbrandsson
Þátttökugjald: kr. 92.000
Tími: 12. til 20. júní 2017
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 1. maí

Master Class í leikstjórn sem byggir á Leikstjórn I og II.

Námskeið þetta verður jöfnum höndum fræðilegt og verklegt. Útgangspunkturinn er aðferð sem kennarinn hefur þróað með sér gegnum tíðina og sækir fyrst og fremst innblástur í ævistarf Konstantins Stanislavskys, bæði hina „vitsmunalegu greiningu“ sem Stanislavsky þróaði framan af ferli sínum og „aðferð líkamlegra gjörða“ sem hann vann að er hann féll frá.
Fleiri áhrifavaldar svífa þó yfir vötnunum og í fyrirlestrum verður fjallað um ýmsa strauma og stefnur í leikstjórn síðustu aldar. Þríeykið Stanislavsky, Brecht og Grotowski verða þar í brennidepli og meðul þeirra skoðuð í sambandi við tilganginn. Aðferðafræði, hugmyndafræði og fagurfræði ólíkra leikstjóra verða vegnar og metnar og bornar saman við „aðferð“ námskeiðsins.

Eftir að skráningu lýkur verða öllum þátttakendum send leikverk til skoðunar og verkefni til að íhuga og leysa áður en námskeiðið hefst, þannig að ákveðins undirbúnings verður krafist.
Kennsla fer fram með ýmsum hætti; fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, einstaklings verkefni, hópverkefni, o.s.frv.

Brettið upp ermar og spýtið í lófa.


Námskeið 3

Leiklist – Sérnámskeið
Kennari Þorsteinn Bachmann
Þátttökugjald: kr. 92.000
Tími: 12. til 20. júní 2017
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 1. maí

Námskeiðið er ætlað þeim sem: 1. Hafa sótt Leiklist I og II í Leiklistarskóla BÍL eða sambærileg grunnnámskeið ásamt því að hafa einhverja reynslu af leiklist. 2. Hafa umtalsverða reynslu af leiklist. 

Áhersla verður lögð á sköpun í gegnum innsæi og andagift. Markvisst verður unnið að því að efla sjálfstæði og frumsköpun leikarans. Unnið verður með list augnabliksins í gegnum núvitund og virkt ímyndunarafl.

Nemendur vinna með tveggja til þriggja manna senur sem sýndar eru í lok námskeiðs. Aðaláhersla er á aðferðafræði Michael Chekhov. Þá verða helstu aðferðir Sanford
Meisner einnig kynntar til leiks ásamt status vinnu í anda Keith Johnstone.


 

Höfundar í heimsókn

Þátttökugjald: kr. 70.000
Tími: 12. til 20. júní 2017
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 1. maí

Blundar í þér skáld – ertu að burðast með hugmynd – áttu hálfskrifað handrit – vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?

Skólinn býður höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif eins og svo oft áður. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.

Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni
skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!


Reykjaskóli er við Hrútafjörð í Húnaþingi vestra. Hann er í 15 km. fjarlægð frá Staðarskála, 17 km. frá Hvammstanga, 178 km. frá Reykjavík, 210 km. frá Akureyri, 620 km. frá Höfn, 348 km. frá Ísafirði og 504 km. frá Egilsstöðum. Á vetrum eru þar reknar skólabúðir fyrir grunnskólabörn. Mikið er af skemmtilegum myndum og öðrum upplýsingum á heimasíðu skólans www.skolabudir.is.