ImageHeildarhugmynd leikrits getur breyst ef einhver af persónunum er látin fá einhverja fötlun. Hvað ef Hamlet væri í hjólastól? Hvað ef óvinurinn í Gullna Hliðinu væri dvergvaxinn, verður hann þá jafn ógnvænlegur? Hvað ef Makki hnífur væri á hækjum? Hvað ef Fílamaðurinn væri ófatlaður, en allir aðrir í leikritinu ættu við einhverja fötlun að stríða?
Þessi hugtök og önnur hefur Halaleikhópurinn, leikhópur fatlaðra og ófatlaðra leikið sér að með einum eða öðrum hætti í þrettán ár.

Þótt heimsfrægð á Íslandi hafi eitthvað látið á sér standa hefur hópurinn á þessum tíma sett upp hvert stórverkið á fætur öðru í þeirra litla og notalega húsnæði í Hátúni 12. Má þar nefna leikrit eins og Túskildingsóperuna eftir Berthold Brecht sem Þjóðleikhúsið er að sýna um þessar mundir, Kirsuberjagarðinn eftir Anton Chekhov, Gullna Hliðið eftir Davíð Stefánsson og Aurasálina eftir Moliére. Auk þess að hafa frumsýnt þrjú splunkuný íslensk leikrit, þá oftast samin með leikhópinn í huga.

Sá sem er svo heppinn að fá að taka þátt í leiklist og í því ferli sem það felur í sér kemst ekki hjá því að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hver hann er. Til þess að geta skapað og túlkað persónu þarf einstaklingurinn að geta sett sig í spor annarra, tjáð gleði, sorg o.s.frv. Leiklistin er ekki eingöngu leikari á sviði heldur einnig hópurinn sem vinnur að sameiginlegu markmiði þar sem allir leggjast á eitt. Samt þarf einstaklingurinn að njóta sín á eigin forsendum. Með því styrkist sjálfsmynd og framtakssemi hans gerir það að verkum að hann eða hún verður færari um að takast á við lífið og tilveruna. Ekki má þó gleyma gamla orðatiltækinu „Maður er manns gaman“.

Þessa dagana er verið að undirbúa uppsetningu á skopleiknum Pókók, sem var fyrsta leikrit Jökuls Jakobssonar. Fyrstu samlestrar verða miðvikudag og fimmtudag 4. og 5. janúar klukkan 19:00 í Halanum, Hátúni 12. Laugardaginn 7. janúar klukkan 13:00 verður síðan skipað í hlutverk og undirbúningur settur í fimmta gír. Leikstjóri er Vilhjálmur Hjálmarsson.

Nú er tækifærið fyrir leiklistaráhugamanninn að mæta, vera með og opna hugann fyrir nýjum upplifunum á sviði leiklistarinnar! Í Halanum er pláss fyrir alla innan sviðs sem utan og skortur á hefðbundinni fötlun engin fyrirstaða nú sem endranær.