Ungmennafélögin Baldur, Samhygð og Vaka í Flóahreppi, frumsýndu í félagsheimilinu Þingborg um helgina gleðileikinn Draumur á Jónsmessunótt eftir William Shakespeare í leikstjórn Gunnars Sigurðssonar. Verkið fjallar um elskendur sem lenda í veseni og misskilningi og álpast inn í töfraskóg þar sem álfurinn Bokki stríðir þeim svo um munar. Inn í flækjuna blandast flokkur handverksmanna sem er staddur í skóginum að æfa leikþátt.
Verkið er einn af allra vinsælustu gamanleikjum Shakespeare og er óhætt að segja að þessi leikgerð ungmennafélaganna þriggja hitti beint í mark. Mikil leikgleði og skemmtileg orka var á sýningunni og mátti vart á milli sjá hvorir skemmtu sér betur leikendur eða áhorfendur.
Alls koma 21 leikari fram í sýningunni og stóðu þeir sig allir með prýði og magnað að sjá hversu mikill kraftur er í félögunum að geta mannað svona fjölmenna sýningu, en langflestir leikarar fóru með fleira en eitt hlutverk. Ef nefna á frammistöðu einstakra leikara er erfitt um vik, allir stóðu sig vel. Sérstaklega fór hinn ungi Jökull Baldursson mjög vel með hlutverk handverksmannsins Páls Kvists, hann kom með mikla orku inn á sviðið og hafði sterka nærveru, en Jökull er aðeins 15 ára gamall. Þorsteinn Logi Einarsson var yndislega sjálfumglaður og fyndinn í hlutverki Jóns Spóla, handverksmanns sem breytist í asna í töfraskóginum. Guðmunda Ólafsdóttir lék álfinn Bokka á sannfærandi máta, var á fleygiferð alla sýninguna og skemmtilega hrekkjótt. Stefán Geirsson sýndi á sér mismunandi hliðar, sem ástsjúkur Demetríus annars vegar og sem einstaklega klaufalegur handverksmaður sem þarf að taka að sér kvenmannshlutverk. Laufey Einarsdóttir var sannfærnadi í hlutverki álfadrottningarinnar Títaníu sem verður ástfangin af asna og einkar fyndin í hlutverki þjónsins Fílóstratusar.
Leikgerðin er skemmtilega unnin og var framburður til fyrirmyndar hjá langflestum.
Sviðsmynd og lýsing var vel útfærð og hefur lenging sviðsins á Þingborg mikið að segja þar. Tónlistin í sýningunni var athyglisverð blanda af ólíkum lögum og útfærsla á framklappi setti gleðilegan endapunkt á sýninguna, þar sem leikarar komu saman í fyndnum og fjörlegum lokadansi.
Það er sannarlega þess vert að kíkja á leikhópinn á Þingborg og leyfa leiktöfrunum að hrífa sig með.
Guðfinna Gunnarsdóttir
Grein birt í Glugganum-Sunnlensku vikublaði, 11.tbl, 2007.
{mos_fb_discuss:2}